Viðskipti erlent

Aflabrestur hjá skoskum humarveiðimönnum, verðið rýkur upp

Óvenju kalt veður í vetur hefur valdið aflabresti hjá skoskum humarveiðimönnum. Það hefur svo aftur leitt til þess að verðið á humrinum hefur rokið upp.

Fjallað er um málið á vefsíðu BBC. Þar er vitnað í samtök skoskra skeldýraveiðimanna sem segja að aflinn við austurströnd Skotlands hafi dregist saman um allt að 90% frá því í fyrra. Vegna kuldans haldi humarinn sig til á hafi úti og sé ekki að finna á hefðbundnum miðuð þessa dagana.

Formaður fyrrgreindra samtaka segir í samtali við BBC að humarinn sé orðinn álíka sjaldgæfur og tennur í hænum. Þeir bíði nú óþolinmóðir eftir því að veður fari hlýnandi að nýju og að humarinn gangi á hefðbundnar slóðir sínar.

Verðið á humrinum hefur rokið upp eða úr 15 pundum á kílóið og í 25 pund enda er þessi humar mjög vinsæl matvara víða í Evrópu. Í venjulega árferði er verðmæti skoska humaraflans, og annarra skeldýra,  um 39 milljónir punda eða um sjö milljarðar króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×