Sjö karlmenn hafa verið ákærðir í tengslum við umsvifamikið amfetamínsmygl fyrr á þessu ári. Þetta er eitt stærsta fíkniefnamál á Íslandi í langan tíma.
Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur staðið yfir í þónokkurn tíma en flestir hinna grunuðu voru handteknir í janúar og febrúar síðastliðnum.
Mennirnir eru grunaðir um að hafa reynt að smygla inn til landsins hátt í tuttugu kílóum af amfetamíni og 1,7 lítra af amfetamínbasa. Ætla má að hægt hefði verið að framleiða 17 kíló af amfetamíni úr basanum.
Efnin komu til landsins í nokkrum póstsendingum en það voru tollayfirvöld sem fundu efnin með aðstoð fíkniefnahunda. Efnin komu frá Danmörku og hafa íslensk lögregluyfirvöld rannsakað málið í samstarfi við dönsku lögregluna.
Sex karlmenn, íslenskir og litháískir, sátu um tíma í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar málsins og eru fimm þeirra á fertugs- og fimmtugsaldri en sá sjötti um fimmtugt. Fimm þeirra sem sátu í gæsluvarðhaldi eru á meðal hinna ákærðu en tveir af hinum ákærðu sættu ekki gæsluvarðhaldi.
Tollvörður sat um tíma í gæsluvarðhaldi vegna málsins, en hann er ekki ákærður í málinu.
Innlent