Fótbolti

Vilanova stýrir liði Barcelona á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tito Vilanova og Jordi Roura á æfingu í París.
Tito Vilanova og Jordi Roura á æfingu í París. Mynd/NordicPhotos/Getty
Tito Vilanova mun stýra liði Barcelona í París á morgun þegar liðið spilar fyrri leik sinn við Paris Saint-Germain í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Aðstoðarmaður hans, Jordi Roura, staðfesti þetta á blaðamannafundi í kvöld.

Tito Vilanova er nýkominn aftur til Spánar eftir tveggja mánaða krabbameinsmeðferð í New York í Bandaríkjunum en Barcelona-þjálfarinn gekkst undir aðgerð rétt fyrir jólin. Vilanova hefur verið í lyfja og geislameðferð undanfarnar tíu vikur.

„Tito Vilanova verður á bekknum á morgun, það er enginn vafi á því. Hann er stjórinn og við erum mjög ánægðir með að fá hann til baka," sagði Jordi Roura við blaðamenn.

„Við verðum að spila hundrað prósent leik til að vinna. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að komast svona langt í Meistaradeildinni og við erum mjög ánægðir með að vera komnir hingað til Parísar. Þeir eru með frábært lið," sagði Jordi Roura.

„PSG-menn eru fljótir í skyndisóknunum og sterkir í loftinu ekki síst þökk sé Zlatan Ibrahimovic og Thiago Silva. Þetta eru bara tveir af styrkleikum liðsins en þeir eiga miklu meira upp í erminni. Við munum reyna að aðlaga okkur að mótherjanum en munum þó aldrei breyta því hvernig við spilum fótbolta," sagði Jordi Roura.

Leikur Paris Saint-Germain og Barcelona hefst klukkan 18.45 á morgun og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Leikirnir hefjast nú klukkutíma fyrr því Evrópubúar eru búnir að flýta klukkunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×