Sport

Fullkominn leikur og Íslandsmet

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Keilusamband Íslands
Keilukappinn Arnar Davíð Jónsson gerði sér lítið fyrir og náði 300 stigum, fullkomnum leik, í annað skipti á rúmum mánuði.

Arnar Davíð keppti á móti í Stafangri og bætti jafnframt Íslandsmetið í fimm leikja seríu karla með því að hljóta alls 1316 stig. Það gerir 263,2 stig að meðaltali í leik.

Arnar Davíð náði fullkomnum leik í fyrsta sinn á ferlinum fyrir rúmum mánuði síðan og greinilegt að hann er upp á sitt allra besta um þessar mundir. Hann var langefstur í sínum flokki á mótinu.

Hann er nítján ára gamall og varð Evrópumeistari unglinga í einstaklingsflokki árið 2011. Hann keppti með íslenska landsliðinu á EM í keilu í fyrra og verður í liðinu sem keppir á HM í Las Vegas í ágúst næstkomandi.

Hann er nú í áttunda sæti norska meðaltalslistans með 220,54 stig í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×