Íslenski boltinn

Vaknaði við slæm tíðindi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Óvíst er hve mikinn þátt Einar Orri Einarsson, miðjumaður Keflavíkur í Pepsi-deild karla, getur tekið þátt í komandi tímabili.

Einar Orri fann fyrir meiðslum í hné þegar Keflvíkingar hófu æfingar í nóvember eftir mánaðarfrí. Hann leitaði til læknis sem taldi að um meiðsl í liðþófa væri að ræða. Hann var því sendur í speglun í desember og reiknað með því að hann yrði frá í fjórar til sex vikur.

„Þegar hann fór inn í hnéð sér hann að þetta eru brjóskskemmdir sem er ekki jafnauðvelt að eiga við," segir Einar Orri.

„Þegar ég vakna úr svæfingunni var þetta orðið að sex mánuðum."

Einar Orri segir að meiðslin séu þess eðlis að batatíminn geti bæði verið styttri eða lengri en sex mánuðir.

„Ég verð bara mjög sáttur ef þetta verða sex mánuðir," segir Einar Orri sem var einn af bestu mönnum Keflavíkur á síðustu leiktíð. Keflvíkingar eru á leiðinni til Spánar í æfingaferð á morgun og Einar Orri ætlar að gera meira en að liggja í sólbaði.

„Ég ætla aðeins að fara að keyra á þetta," segir Einar Orri sem vonar það besta. Það sé hins vegar langur vegur á milli þess að skokka og að geta tekið á því af fullu í leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×