Viðskipti erlent

Innistæðueigendur þurfa að þola mikinn skell

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Laikibanki á Kýpur.
Laikibanki á Kýpur. Mynd/ AFP.
Innistæðueigendur í Kýpurbanka, sem eiga meira en 100 þúsund evrur inni á reikningum (16 milljónir króna) gætu tapað meira en 60% af innistæðum sínum vegna láns Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Um 38% af innistæðum verða hlutabréf.

Um 22,5% fara síðan inn í sjóð sem ber enga vexti og verða síðan hugsanlega afskrifaðir að fullu. Vextir verða greiddir af öðrum 40% en þeir verða ekki greiddir nema að rekstur bankans gangi vel.

Mark Lowen, fréttaritari BBC, segir að það hafi alltaf verið vitað að innistæðueigendur í Kýpurbanka myndu þurfa að taka mikinn skell vegna efnahagsumbótanna sem á að ráðast í á Kýpur. Þetta sé hins vegar meira en nokkra hefði grunað.

Yfirvöld í Kýpur segja að innistæðueigendur í Laikibanka, öðrum stærsta banka á Kýpur, muni hugsanlega þurfa að taka á sig meiri skell. Hins vegar hefur ekkert fengist staðfest um það.

Yfirvöld segja að Kýpurbanki muni fyrr en varir taka yfir Laiki.

Meira má lesa um málið á fréttavef BBC.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×