Actavis á Íslandi og Ásdís Hjálmsdóttir spjótkastari og lyfjafræðingur hafa gert með sér samkomulag um að Actavis verði aðalstyrktaraðili Ásdísar fram yfir Ólympíuleikana í Ríó í Brasilíu árið 2016.
Markmið samningsins er að Ásdís fái unnið sem best að því markmiði að ná góðum árangri á Ólympíuleikunum en í fyrra var hún í 16. sæti heimslistans í spjótkasti kvenna.
Nái Ásdís markmiði sínu um að keppa í Ríó 2016, yrðu það hennar þriðju Ólympíuleikar. Á Ólympíuleikunum í fyrrasumar í Lundúnum hafnaði hún í 11. sæti og setti Íslandsmet í spjótkasti, 62,77m.
Samningurinn byggist á árlegu fjárframlagi frá Actavis á Íslandi sem gerir Ásdísi kleift að stunda æfingar hjá þjálfara sínum Terry McHugh í Sviss, en þangað heldur hún að jafnaði einu sinni í mánuði.
Samningurinn auðveldar henni einnig að taka þátt í alþjóðlegum stórmótum, sem verða fjölmörg fram að Ólympíuleikunum.
