Sport

Welker sveik Brady og fór til Manning

Frábæru samstarfi Tom Brady og Wes Welker er lokið.
Frábæru samstarfi Tom Brady og Wes Welker er lokið.
Tom Brady, leikstjórnandi New England Patriots, er ekki í neinu afmælisskapi í kvöld eftir að hans uppáhaldsútherji, Wes Welker, sveik lit og færði sig yfir til Peyton Manning.

Brady tók á sig launalækkun á dögunum og fyrsta forgangsatriði Patriots í kjölfarið var að semja við Welker sem var með lausan samning.

Flestir bjuggust við því að Welker yrði áfram með Brady og enginn átti von á því að hann myndi læða sér undir sængina hjá Manning, helsta keppinaut Brady í gegnum árin.

Welker skrifaði undir tveggja ára samning við Denver Broncos og fær fyrir það litlar 12 milljónir dollara.

Sögur segja að hann hafi boðið Patriots að jafna það tilboð en félagið hafi hafnað því. Við það sé Brady allt annað en sáttur.

Það hefur enginn útherji í sögu Patriots gripið jafn margar sendingar og Welker. Hann greip alls 672 sendingar á sex árum. Á þrem af þessum árum greip hann flesta bolta allra í deildinni. Það er því ekki skrítið að Brady muni sakna Welker.

Vopnabúr Manning er aftur á móti orðið ansi sterkt með Welker, Demaryius Thomas og Eric Decker sem hans aðalmenn.



NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×