Alex Ferguson, stjóri Manchester United, sendi aðstoðarmann sinn á blaðamannafund eftir leik sinna manna gegn Real Madrid í Meistaradeildinni í kvöld.
Mike Phelan, aðstoðarstjóri United, sat fundinn í fjarveru Ferguson sem var sagður vera mjög svo niðurlútur eftir tap sinna manna gegn Real Madrid í kvöld.
„Menn eru mjög sorgmæddir inn í klefa og stjórinn er mjög sorgmæddur. Þess vegna sit ég hér núna," sagði Phelan á fundinum.
United-menn voru afar óánægðir með rauða spjaldið sem Nani fékk í kvöld. Þá var staðan 1-0 en leiknum lauk með 2-1 sigri Real Madrid. „Ég held að stjórinn sé ekki í neinu standi til að tala við dómarann. Það segir margt að ég sé hér en ekki hann."
„Ákvörðun dómarans voru okkur afar mikil vonbrigði og ég tel að hún hafi eyðilegt leikinn. En við verðum að halda áfram. Við erum allir gáttaðir á þessu. Við stóðum okkur frábærlega en ein ákvörðun eyðilagði allt."
Wayne Rooney var settur á bekkinn í kvöld en Phelan sagði ákvörðunina taktíska. „Þetta var ekki auðveld ákvörðun," sagði Phelan.
Fótbolti