Fótbolti

Eyjólfur til Midtjylland í sumar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eyjólfur í leik með SönderjyskE.
Eyjólfur í leik með SönderjyskE. Nordic Photos / Getty Images
Eyjólfur Héðinsson mun í sumar skipta um félag í Danmörku og ganga til liðs við Midtjylland. Hann er nú á mála hjá SönderjyskE.

Þetta kemur fram í danska blaðinu Ekstra Bladet í dag. Þar segir að Eyjólfur hafi átt í viðræðum við SönderjyskE um nýjan samning í nokkurn tíma en að Midtjylland hafi blandað sér í málin og náð samkomulagi við Eyjólf um samning sem taki gildi þann 1. júlí næstkomandi.

Eyjólfur á aðeins hálft ár eftir af sínum samningi við SönderjyskE og því er honum, eins og öðrum knattspyrnumönnum í sömu stöðu, frjálst að ræða við önnur félög. Hann var einnig orðaður við AC Horsens.

Eyjólfur er markahæsti leikmaður SönderjyskE með sex mörk á tímabilinu og einn mikilvægasti leikmaður liðsins. Segir í grein blaðsins að liðið hafi hrunið þegar að Eyjólfur meiddist í haust og var frá í nokkurn tíma.

Hann náði sér svo vel á strik eftir meiðslin og skoraði í síðustu fjórum leikjum liðsins fyrir vetrarhlé.

Midtjylland er í áttunda sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 22 stig en SönderjyskE í níunda sæti, aðeins einu stigi á eftir. Þessi lið mætast einmitt í fyrstu umferð deildarinar eftir vetrarfrí, þann 2. mars næstkmoandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×