Fótbolti

Mourinho: Heimurinn er að bíða eftir leik Real og United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho á Old Trafford í gær.
Jose Mourinho á Old Trafford í gær. Mynd/Nordic Photos/Getty
Jose Mourinho stýrði Real Madrid til 4-1 sigurs á Sevilla á laugardagskvöldið en var síðan mættur á Old Trafford í Manchester í gær til að fylgjast með Manchester United liðinu. Real Madrid tekur á móti Manchester United á miðvikudaginn í fyrri leik liðanna í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

„Menn tala um að það sé mikil pressa á liðunum því stórt félag sér að fara að falla úr keppni. Fólk er samt ekki að bíða eftir einhverjum venjulegum leik. Heimurinn er að bíða eftir leik Real og United," sagði Jose Mourinho við BBC.

Mourinho hitti Ferguson eftir leikinn og segir þá vera enn góða vini þrátt fyrir kringumstæðurnar.

„Ég nýt þeirra forréttinda að vera vinur hans því þarna er á ferðinni mikilvæg persóna í fótboltaheiminum og það sem skiptir enn meira máli, góður maður," sagði Mourinho.

„Við eigum frábært samband og ég er stoltur af því. Við höfum mæst í mörgum leikjum, þegar ég var hjá Porto, Chelsea, Inter og nú Real. Suma vann ég, aðrir töpuðust og einhverjir enduðu með jafntefli," sagði Mourinho.

„Auðvitað viljum við báðir vinna en ég er samt á því að ef að við töpuðum þá líður okkur aðeins betur vitandi það að hinn hefur unnið. Efist þó ekki, ég ætla að vinna," sagði Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×