Sport

Pabbi Gunnars Nelson: Einmitt það sem Gunni þurfti núna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Nelson.
Gunnar Nelson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Gunnar Nelson vann sinn annað UFC-bardaga og sinn ellefta MMA-bardaga í röð í Wembley Arena í gærkvöldi þegar hann sigraði Brasilíumanninn Jorge Santiago örugglega.

Haraldur Dean Nelson, faðir Gunnars, var sáttur með strákinn sinn þegar Vísir heyrði í honum í dag.

„Þetta var það sem við vildum og ég er mjög ánægður með þetta. Þetta var einmitt það sem Gunni þurfti núna, þrjár lotur gegn mjög sterkum andstæðingi," sagði Haraldur Dean Nelson en Jorge Santiago hefur vanalega keppt í millivigt sem er einum þyngdarflokki ofar.

Gunnar Nelson hefur náð að klára alla bardaga sína nema tvo í fyrstu hrinu en fór nú í fyrsta sinn í gegnum allar þrjár loturnar.

„Þessi bardagi skilaði miklu í reynslubankann og var mjög flottur. Það hefði auðvitað verið gaman fyrir Gunnar að klára hann en þetta var mjög sterkur andstæðingur og þetta var flottur bardagi," sagði Haraldur.

„Við ætlum bara að slaka á í dag en svo erum við að fara til Dublin á morgun. Árni Ísaksson og Bjarki Þór Pálsson eru að fara að keppa þar á laugardaginn og við vonum að það gangi jafnvel," sagði Haraldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×