Sport

Forseti UFC: Gunnar þarf meira drápseðli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Dana White, forseti UFC-bardagasambandsins, ætlar að bíða með að láta Gunnar Nelson berjast við bestu kappana í sínum þyngdarflokki.

White sagði á blaðamannafundi eftir UFC-bardagakvöld á Wembley í Lundúnum um helgina að Gunnar hefði nægan tíma. Gunnar hafði betur gegn Jorge Santiago á stigum eftir þriggja lotu bardaga.

„Maður vill ekki fara sér óðslega með hann. Hann er ungur enn og nýbúinn að ganga í gegnum sinn fyrsta þriggja lotu bardaga í UFC. Hann á nægan tíma - ekkert nema tíma," sagði White.

Gunnar hefur nú tvívegis barist í UFC-bardagadeildinni sem er talin sú sterkasta í heimi. Alls hefur hann unnið ellefu af tólf bardögum sínum á atvinnumannaferlinum og er enn ósigraður.

„Það er áhugavert hversu óhefðbundinn hann er. Hann er með hendurnar niður við mjaðmirnar en samt mjög fljótur og höggþungur. Hann getur látið höggin dynja á manni úr alls kyns áttum."

„Ég er ánægður með að hann hafi barist allar þrjár loturnar. Hann hefur gott af reynslunni. Hann þarf líka meira drápseðli," sagði White.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×