Íranski kaupsýslumaðurinn Vincent Tchenguiz hefur stefnt bresku efnahagsbrotalögreglunni SFO. Hann krefst þess að fá tvö hundruð milljónir í skaðabætur, eða það sem nemur tæpum fjörutíu milljörðum króna. Mál SFO gegn Tchenguiz var fellt niður á síðasta ári en það var í tengslum við hrun íslenska bankakerfisins, einna helst Kaupþings.
Greint er frá þessu á vef Financial Times í dag.
Þar kemur fram að kæran á hendur SFO sé 66 blaðsíður að lengd. Stofnunin er sökuð um að hafa brotið ítrekað á rétti Tchenguiz. Að sama skapi eru vinnubrögð hennar gagnrýnd, þá sérstalega upplýsingaöflun sem að hluta til fór fram í gegnum þriðja aðila, endurskoðunarfyrirtækið Grant Thornton. Félagið hafði áður starfað með kröfuhöfum Kaupþings.
Ákveðið var að falla frá málinu á hendur á Tchenguiz eftir að SFO viðurkenndi að hafa misskilið rannsóknargögn málsins.
Tchenguiz lýsti því yfir við Financial Times að hann hefði orðið fyrir stórfelldu fjárhagslegu tjóni vegna rannsóknar SFO.
