Keflavík vann öruggan sigur á nágrönum sínum frá Njarðvík, 102-91, í fjórða og síðasta leik átta liða úrslita Poweradebikarsins í körfubolta. Keflavík lagði grunninn að sigrinum í öðrum leikhluta og vannn öruggan sigur.
Leikurinn var ákaflega hraður í upphafi og mikið skorað. Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta og aðeins munaði einu stigi fyrir Keflavík 28-27.
Keflavík skoraði líka mikið í öðrum leikhluta og lokaði á Njarðvík með varnarleik sínum og náði fjórtán stiga forystu fyrir hálfleik 55-41.
Njarðvík náði að minnka muninn í ellefu stig fyrir fjórða leikhluta en liðið náði aldrei að gera leikinn spennandi og tryggði Keflavík sæti sitt í undanúrslitum með öruggum sigri. Keflavík verður í pottinum með Grindavík, Snæfelli og Stjörnunni þegar dregið verður í undanúrslit.
Michael Craion fór mikinn í leiknum fyrir Keflavík. Hann skoraði 36 stig og hirti 15 fráköst. Billy Baptist skoraði 20 stig, tók 15 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Darrel Keith Lewis átti ekki síðri leik. Hann skoraði 17 stig, tók 9 fráköst og gaf 10 stoðsendingar.
Hjá Njarðvík skoraði Elvar Már Friðriksson 33 stig. Nigel Moore skoraði 18 stig, tók 12 fráköst og gaf 5 stoðsendingar og Marcus Van skoraði 15 stig auk þess að hirða 16 fráköst.
Keflavík-Njarðvík 102-91 (28-27, 27-14, 16-19, 31-31)
Keflavík: Michael Craion 36/15 fráköst/6 stolnir/7 varin skot, Billy Baptist 20/15 fráköst/5 stoðsendingar, Darrel Keith Lewis 17/9 fráköst/10 stoðsendingar, Magnús Þór Gunnarsson 12/4 fráköst, Valur Orri Valsson 9/4 fráköst, Ragnar Gerald Albertsson 8, Almar Stefán Guðbrandsson 0, Snorri Hrafnkelsson 0, Sigurður Vignir Guðmundsson 0, Hafliði Már Brynjarsson 0, Andri Þór Skúlason 0, Andri Daníelsson 0.
Njarðvík: Elvar Már Friðriksson 33, Nigel Moore 18/12 fráköst/5 stoðsendingar/7 stolnir, Marcus Van 15/16 fráköst/3 varin skot, Maciej Stanislav Baginski 15, Ágúst Orrason 6/5 fráköst, Oddur Birnir Pétursson 2, Friðrik E. Stefánsson 2, Magnús Már Traustason 0, Hjörtur Hrafn Einarsson 0, Ólafur Helgi Jónsson 0, Brynjar Þór Guðnason 0, Óli Ragnar Alexandersson 0.
Keflavík örugglega í undanúrslit
Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
