Sérsniðnar síður fyrir notendur Instagram líta dagsins ljós á næstu dögum, en áður hafði viðmót notenda einskorðast við snjallsímana eða spjaldtölvurnar sem forritið hafði verið sett upp í. Notendur fá núna vefsíðu með notendamynd, upplýsingum um notandann og úrvali nýrra mynda sem hlaðið hefur verið á netið.
Instragram, sem verið hefur í eigu Facebook síðan í vor, tilkynnti um breytinguna í gær. Útlit vefsíðna notenda Instagram þykir minna á "tímalínu"-útlit Facebook-síðna, nema hvað að þar er mjög lítinn texta að finna og engar auglýsingar. Þjónustan er hins vegar aðskilin Facebook þannig að vefsíður Instagram fara ekki fram á að notendur skrái sig inn með Facebook-aðgangi sínum.
Persónuupplýsingastillingar minna svo á stillingar Twitter-samfélagsíðunnar þar sem fólk getur valið að vera með alveg opinn aðgang, þar sem hver sem er getur séð og gert athugasemdir við myndir, eða lokaðan þar sem fólk sér ekkert nema að notandinn hafi heimilað það.
Hægt er að kynna sér málið nánar hér í fréttatilkynningu frá Instagram. -óká