Vetur sjálfsánægjunnar Friðrika Benónýs skrifar 1. nóvember 2012 08:00 Þessi vetur lítur út fyrir að verða óvenju harður. Ekki endilega hvað veðurfar varðar heldur eru það kosningarnar í vor sem hörkunni valda. Frambjóðendur eru nú þegar, í upphafi nóvembermánaðar, komnir í skotgrafirnar fyrir prófkjörin. Flíka sínu eigin ágæti á kostnað annarra frambjóðenda og bombardera blásaklausa kjósendur með Facebook-síðum, vefsíðum, tilkynningum, fjölskyldumyndum og innihaldslausum viðtölum í fjölmiðlum. Hver og einn reynir að sannfæra okkur um yfirburði sína fram yfir aðra valkosti til að gegna þessu fyrirlitnasta starfi á landinu. Hnútukastið er hafið og hér eru menn þó að keppa við samherja sína. Hjálpi okkur allar vættir þegar prófkjörunum lýkur og menn fara að snúa sér að því að níða skóinn af pólitískum andstæðingum. Auðvitað er þakkarvert að einhverjir skuli vera tilbúnir að leggja það á sig að sitja á löggjafarþinginu. Og auðvitað er blessuðu fólkinu vorkunn að þurfa að standa í mittisdjúpri prófkjörseðjunni og veifa öllum öngum til að vekja á sér athygli. Aumingja blessaðar manneskjurnar. Og kannski er það lágmarkssjálfsbjargarviðleitni að skipta um flokk eða kjördæmi ef menn sjá fram á að hljóta ekki brautargengi í prófkjöri þar sem þeir eru núna. Kannski. En ósköp er það nú samt illa til þess fallið að sannfæra væntanlega kjósendur um að hér fari manneskja sem hafi pólitískar hugsjónir að leiðarljósi. Nema maður hafi bara fullkomlega misskilið það hugtak og hugsjónamennska nútímans snúist einfaldlega um að ota sínum tota og hlaða undir eigin rass. Miðað við sjálfslýsingar prófkjörsframbjóðenda mætti reyndar ætla að hér væru slík valmenni (og já, konur eru menn) á ferð að þjóðin biði þess aldrei bætur ef þeir kæmust ekki á þing. Sem virkar fremur undarlega á hinn almenna kjósanda sem fylgst hefur með frammistöðu þessara sömu frambjóðenda á yfirstandandi þingi. Er persónuleikabreyting innifalin í ímyndarsköpun nútíma pólitíkusa fyrir prófkjör? Já, þetta verður harður vetur. Þegar sjálfshóli prófkjörskandídata lýkur hefst endursköpun sögunnar þar sem öllum staðreyndum frá síðustu fjórum árum verður snúið á haus. Allir flokkar hafa staðið sig frábærlega að eigin mati og allir aðrir flokkar hafa staðið sig hörmulega samkvæmt sama mati. Hringekjan mun snúast fram á vor og þá kemur væntanlega í ljós hvort sú skoðun pólitíkusa að kjósendur séu auðtrúa fífl með gullfiskaminni á við rök að styðjast. Þangað til er eina vörnin að slökkva á öllum fréttamiðlum, skrá sig út af Facebook og finna sér eitthvað uppbyggilegra að iðja en að hlusta á sjálfsánægjurausið og skítkastið. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Friðrika Benónýsdóttir Mest lesið Halldór 05.04.2025 Halldór Þegar vald óttast þekkingu. Halla Sigríður Ragnarsdóttir Skoðun Hverjir eiga Ísland? Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun Komum náminu á Höfn í höfn Halla Hrund Logadóttir Skoðun Með hjúkkuna upp í rúm og lækninn í vasanum Björgmundur Örn Guðmundsson Skoðun Snýst núverandi staðsetning Reykjavíkurflugvallar um öryggi… eða mögulega eitthvað annað Daði Rafnsson ,Kristján Vigfússon ,Margrét Manda Jónsdóttir Skoðun Veiðigjöld vs afnám undanþágu orkumannvirkja frá fasteignamatsskyldu Guðmundur Haukur Jakobsson Skoðun Betra líf eftir greiningu krabbameins, tímamótarannsókn sem vísar veginn Sigríður Gunnarsdóttir Skoðun Eitruð kvenmennska Ása Lind Finnbogadóttir Skoðun Hinn nýi íslenski aðall Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir Skoðun
Þessi vetur lítur út fyrir að verða óvenju harður. Ekki endilega hvað veðurfar varðar heldur eru það kosningarnar í vor sem hörkunni valda. Frambjóðendur eru nú þegar, í upphafi nóvembermánaðar, komnir í skotgrafirnar fyrir prófkjörin. Flíka sínu eigin ágæti á kostnað annarra frambjóðenda og bombardera blásaklausa kjósendur með Facebook-síðum, vefsíðum, tilkynningum, fjölskyldumyndum og innihaldslausum viðtölum í fjölmiðlum. Hver og einn reynir að sannfæra okkur um yfirburði sína fram yfir aðra valkosti til að gegna þessu fyrirlitnasta starfi á landinu. Hnútukastið er hafið og hér eru menn þó að keppa við samherja sína. Hjálpi okkur allar vættir þegar prófkjörunum lýkur og menn fara að snúa sér að því að níða skóinn af pólitískum andstæðingum. Auðvitað er þakkarvert að einhverjir skuli vera tilbúnir að leggja það á sig að sitja á löggjafarþinginu. Og auðvitað er blessuðu fólkinu vorkunn að þurfa að standa í mittisdjúpri prófkjörseðjunni og veifa öllum öngum til að vekja á sér athygli. Aumingja blessaðar manneskjurnar. Og kannski er það lágmarkssjálfsbjargarviðleitni að skipta um flokk eða kjördæmi ef menn sjá fram á að hljóta ekki brautargengi í prófkjöri þar sem þeir eru núna. Kannski. En ósköp er það nú samt illa til þess fallið að sannfæra væntanlega kjósendur um að hér fari manneskja sem hafi pólitískar hugsjónir að leiðarljósi. Nema maður hafi bara fullkomlega misskilið það hugtak og hugsjónamennska nútímans snúist einfaldlega um að ota sínum tota og hlaða undir eigin rass. Miðað við sjálfslýsingar prófkjörsframbjóðenda mætti reyndar ætla að hér væru slík valmenni (og já, konur eru menn) á ferð að þjóðin biði þess aldrei bætur ef þeir kæmust ekki á þing. Sem virkar fremur undarlega á hinn almenna kjósanda sem fylgst hefur með frammistöðu þessara sömu frambjóðenda á yfirstandandi þingi. Er persónuleikabreyting innifalin í ímyndarsköpun nútíma pólitíkusa fyrir prófkjör? Já, þetta verður harður vetur. Þegar sjálfshóli prófkjörskandídata lýkur hefst endursköpun sögunnar þar sem öllum staðreyndum frá síðustu fjórum árum verður snúið á haus. Allir flokkar hafa staðið sig frábærlega að eigin mati og allir aðrir flokkar hafa staðið sig hörmulega samkvæmt sama mati. Hringekjan mun snúast fram á vor og þá kemur væntanlega í ljós hvort sú skoðun pólitíkusa að kjósendur séu auðtrúa fífl með gullfiskaminni á við rök að styðjast. Þangað til er eina vörnin að slökkva á öllum fréttamiðlum, skrá sig út af Facebook og finna sér eitthvað uppbyggilegra að iðja en að hlusta á sjálfsánægjurausið og skítkastið.
Snýst núverandi staðsetning Reykjavíkurflugvallar um öryggi… eða mögulega eitthvað annað Daði Rafnsson ,Kristján Vigfússon ,Margrét Manda Jónsdóttir Skoðun
Veiðigjöld vs afnám undanþágu orkumannvirkja frá fasteignamatsskyldu Guðmundur Haukur Jakobsson Skoðun
Betra líf eftir greiningu krabbameins, tímamótarannsókn sem vísar veginn Sigríður Gunnarsdóttir Skoðun
Snýst núverandi staðsetning Reykjavíkurflugvallar um öryggi… eða mögulega eitthvað annað Daði Rafnsson ,Kristján Vigfússon ,Margrét Manda Jónsdóttir Skoðun
Veiðigjöld vs afnám undanþágu orkumannvirkja frá fasteignamatsskyldu Guðmundur Haukur Jakobsson Skoðun
Betra líf eftir greiningu krabbameins, tímamótarannsókn sem vísar veginn Sigríður Gunnarsdóttir Skoðun