Bakþankar

Skjálfandi spádómar

Sex ítalskir vísindamenn og fyrrverandi embættismaður voru í vikunni dæmdir í sex ára fangelsi fyrir manndráp af gáleysi. Sök þeirra var að hafa í aðdraganda jarðskjálftans við L'Aquila á Ítalíu í apríl 2009, sem varð 297 að bana, látið hafa eftir sér að stór jarðskjálfti væri ólíklegur til að eiga sér stað þrátt fyrir jarðhræringar á svæðinu.

Nú er nokkuð ljóst að vísindamennirnir gátu vandað orð sín betur, til dæmis minnst á að í raun er ómögulegt að spá fyrir um jarðskjálfta. Það breytir hins vegar ekki því að þeir höfðu rétt fyrir sér! Að teknu tilliti til þekkingar jarðvísindamanna á jarðskjálftum var það hárrétt niðurstaða að stór jarðskjálfti væri mjög ólíklegur.

Hann var ekki útilokaður, og stórir skjálftar eru raunar aðeins líklegri til að ríða yfir en ella í kjölfar minni jarðhræringa, en hann var samt mjög ólíklegur. Dómarinn í þessu máli virðist hins vegar hafa talið vísindamennina færa um nákvæma jarðskjálftaspá og er það ágætt dæmi um það ofmat sem víða ríkir á spádómsgáfu almennt.

Þegar fréttir eru skrifaðar um hagspár, skoðanakannanir, veðurspár og svo framvegis, er líklegasta niðurstaðan (eða punktmatið) nær undantekningalaust sett í fyrirsögn. Vikmörk eða aðrir möguleikar eru oft ekki einu sinni nefndir jafnvel þótt punktmat sé í raun algjörlega þýðingarlaust án vikmarka.

Framsetning sem þessi ýtir undir þá tilfinningu að spádómarnir séu nákvæmir, og það gerðu orð vísindamannanna mögulega einnig. Vandinn er sá að spádómar um önnur en allra einföldustu mál eru sjaldnast nákvæmir. Ástæðan fyrir því að spám er hins vegar yfirleitt stillt svona upp er sú að fólki líkar upp til hópa illa við óvissu. Fólk vill frekar hlusta á þann sem þykist vita allt en annan sem játar að vera ekki með öll svörin.

Spámenn hafa þess vegna oft hvata til þess að láta eins og þeir viti meira en þeir gera. Þetta vita spunalæknar sem kenna stjórnmálamönnum að láta alltaf eins og þeir séu algjörlega vissir um skynsemi eigin stefnumála. Þá er þekkt að veðurfréttamenn spá eiginlega aldrei helmingslíkum á rigningu, jafnvel þótt það sé þeirra besta ágiskun, heldur hækka þeir spána í 60% líkur.

Fyrir þessu eru tvær ástæður. Í fyrsta lagi tekur fólk sjaldnast mark á 50% spám, þótt þær geti veitt heilmiklar upplýsingar, og í öðru lagi verður fólk reitt ef það rignir en veðurfréttamaðurinn spáði 50% eða lægri líkum á rigningu. Það er því sjaldnast skynsamlegt að taka punktspám eins og þær eru settar fram. Það þarf líka að velta fyrir sér vikmörkunum og meira að segja svörtu svönunum sem henda næstum því aldrei. Það hefðu bæði dómarinn og vísindamennirnir betur haft í huga.






×