Innlent

Flúði níu ára fangelsisdóm á Spáni

Sverrir Þór Gunnarsson
Sverrir Þór Gunnarsson

Sverrir Þór Gunnarsson, Sveddi tönn, er með níu ára óafplánaðan fangelsisdóm á bakinu á Spáni fyrir fíkniefnasmygl. Hann lagði á flótta eftir að dómurinn féll og síðan hefur hann verið eftirlýstur af spænskum yfirvöldum.

Þetta kemur fram á brasilíska fréttavefnum Globo. Þar segir jafnframt að alþjóðalögreglan Interpol hafi verið látin vita þegar Sverrir var handtekinn í Rio de Janeiro fyrir viku og nú sé það undir Hæstarétti Brasilíu komið hvort hann verði framseldur til Spánar til að afplána refsinguna.

Sverrir var handtekinn eftir að mikið magn af e-töflum fannst í farangri ungrar stúlku, sem vísaði strax á kærasta sinn og Sverri sem skipuleggjendur smyglsins. Henni var sleppt úr haldi vegna þess hve samvinnufús hún var. E-töflurnar reyndust vera 50.900 talsins.

Sverrir, sem kom til landsins á fölsku vegabréfi, hefur neitað að tjá sig um málið við lögreglu.

"Það má segja að við höfum varpað út neti til að veiða fiska en fangað stóran hákarl í alþjóðlegri glæpastarfsemi," segir Ricardo Bechara hjá ríkislögreglunni í samtali við Globo. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×