Fastir pennar

Eitt EM fyrir alla

Pawel Bartoszek skrifar
Evrópumeistaramót karla í knattspyrnu hefst í næstu viku. Evrópumeistaramót kvenna verður á næsta ári. Í daglegu tali er karlamótið þó oftast einfaldlega kallað „EM" en kvennamótið „EM kvenna", ef það er yfirhöfuð kallað nokkuð. Oftast láta menn eins og síðarnefnda mótið sé varla til.

Svo djúpt ristir þetta, að jafnvel femínistavefurinn knúz.is talar um „Evrópumeistarakeppnina í knattspyrnu 2012" í opnu bréfi til RÚV. Þar er Sjónvarpið hvatt til að fá fleiri konur til að tala um fótbolta í tengslum við mótið, sem er fínt sjónarmið í sjálfu sér, en enn æskilegra væri að sjá þær á vellinum einnig. Mig dreymir um eitt EM, með karla- og kvennakeppni á sama tíma.

Kvenna-Wimbledon?Hin aðskildu karla- og kvennamót skemma fyrir konum. Best launaði fótboltakarl heims, Argentínumaðurinn Lionel Messi, fær 43,5 milljónir Bandaríkjadollara á ári fyrir iðju sína. Hinum megin kynjalínunnar er brasilíska knattspyrnukonan Marta sem fyrir hálfu öðru ári skrifaði undir samning upp á hálfa milljón í bandarísku kvennadeildinni (sem nú er hætt). Sú upphæð hefði sem sagt dugað fyrir fjögurra daga samningi við Lionel Messi. Árslaun bestu knattspyrnukonu duga því til að borga besta knattspyrnukarli fyrir einn leik.

Í tennis er staðan önnur. Samkvæmt tímaritinu Forbes fær Roger Federer 47 milljónir dollara á ári fyrir að sveifla spaða, meðan Maria Sharapova fær 24,2 milljónir. Þetta er vissulega enn nokkur munur en samt margfalt skárra en í knattspyrnunni. Raunar er það svo að af tíu best launuðu íþróttakonum heims eru sex tenniskonur. Ætli stærsti hluti skýringarinnar liggi ekki einmitt í því að tenniskonur spila á sömu mótum og karlar og njóta því svipaðrar athygli og þeir. Til allrar hamingju datt engum í hug að búa til sérstakt Kvenna-Wimbledon-mót.

Þetta virðist vera regla: Þar sem mótin eru sameiginleg eiga íþróttakonur betri möguleika á að fá athygli. Skíðakonur, sundkonur, frjálsíþróttakonur og fimleikakonur eru líklegri til að ná svipuðum tekjum og karlar. Þær konur sem spila handbolta, fótbolta eða körfubolta, þurfa sífellt að berjast fyrir athygli.

Ættu „Kvennaólympíuleikar í Gautaborg 2013" mikinn séns á að slá áhorfsmet? Varla. Auðvitað var það hárrétt frá öllum sjónarhornum að gefa konum færi á að keppa á Ólympíumóti með áratugasögu frekar en búa til eitthvert nýtt mót, bara fyrir þær. Sömu ákvörðun hefði átt að taka í knattspyrnu, en fyrst það var ekki gert, þarf að leiðrétta þau mistök.

Með sameiginlegu móti myndi allt vinnast, kvennakeppnin fengi verðskuldaðan sjónvarpstíma og auðveldara væri að fylla vellina. Nú stendur reyndar til að fjölga liðunum á EM karla upp í 24 árið 2016. Það er leitt að það tækifæri hafi ekki frekar verið notað til að bæta við kvennakeppni. Það breytir þó ekki því að markmiðið til langs tíma ætti að vera að öll Evrópu- og heimsmeistaramót í liðaíþróttum væru ætluð báðum kynjum.

Að sannfæra karlaklúbbLíklegast þyrfti heilmikið puð til að koma þessu til leiðar. FIFA og UEFA eru nefnilega karlaklúbbar í nokkuð beinni merkingu þess orðs. Í sextán manna stjórn UEFA eru sextán karlar. Í seinustu viku var kona loksins kosin í stjórn FIFA. Hún er sú fyrsta í 108 ára sögu sambandsins. Þessar skekkjur hafa áhrif. Það er þannig sífellt verið að fjölga liðum í karlakeppnum en fjölda liða í kvennakeppnunum haldið niðri með þeirri afsökun að kvennaboltinn sé „ekki búinn að ná nógu miklum gæðum". Þessar bullskýringar hafa þau áhrif að stelpur sem spila fótbolta hafa síðri möguleika á að komast í úrslitakeppni stórmóts en strákar og þær sem þangað komast fá minni athygli en þeir.

Hugmyndum sem þessum þarf fyrst að vinna fylgi innanlands og gera þær að opinberri stefnu íslenskra íþróttasambanda á borð við KSÍ. Næst þarf að vinna þeim fylgi í útlöndum, og líklegast best að byrja í norðurhluta Evrópu, þar sem kvennaknattspyrna stendur hvað best. Slíkar nýjungar gætu vissulega mætt andstöðu, en ef jafna á hlut karla og kvenna í knattspyrnuheiminum er líklegast engin önnur leið vænlegri til árangurs.






×