Pólitískir ákærendur fá á baukinn Þorsteinn Pálsson skrifar 28. apríl 2012 06:00 Geir Haarde þurfti ekki að vera ósáttur við niðurstöðu Landsdóms. Satt best að segja gat hann verið mjög ánægður. En hann hafði ekki tilefni til að vera hæstánægður. Eðlilega er spurt hvort sækjandinn eða verjandinn hafi haft erindi sem erfiði fyrir réttinum. Þegar af þeirri ástæðu, að ekki er gerð refsing fyrir eitt einasta ákæruatriði, er ekki unnt að svara spurningunni á annan veg en að sá naumi pólitíski meirihluti sem stóð að ákærunum hafi farið erindisleysuna. Hér kemur þó fleira til skoðunar: Áður var búið að vísa veigamiklum ákærum frá. Að mati dómsins sjálfs er sýknað af veigamestu ákærunum sem eftir stóðu en sakfellt án refsingar í þeirri gildisminnstu. Þegar málskostnaður er alfarið felldur á ákæruvaldið er jafnan litið svo á að í því felist skilaboð um að ekki hafi verið tilefni til ákæru. Niðurstaðan er skýr: Ákærurnar spruttu meir af pólitík en réttvísi. Þeir sem ábyrgð bera á því fá á baukinn. Kallað hefur verið eftir afsögn Steingríms Sigfússonar vegna forystu hans um málsókn. Honum er það ekki stjórnskipulega skylt. Það þarf hann aðeins að gera vilji hann vera vandur að virðingu sinni. Um pólitísk áhrif til lengri tíma er erfitt að spá. Flestir eru sammála um að það væri skaðlegt lýðræðinu að halda áfram á þessari braut. En hætt er við að eitrið sitji eftir ef aðeins fáir af pólitískum ákærendum í málinu sjá mistökin.Skortur á rökvísi Sakfellingin lýtur að formsatriði. Þau eru að sönnu mikilvæg og alveg sérstaklega í stjórnarskrá. En því aðeins er unnt að sakfella fyrir slíkt formbrot að um stórkostlegt gáleysi hafi verið að ræða. Það er hins vegar lítið rökrænt samhengi í því að stórkostlegt gáleysi sé talið refsilaust. Sú ástæða að refsing sé ekki gerð vegna þess að forsætisráðherra eigi sextíu og eitt ár að baki án brotaferils er léttvæg í stjórnskipulegu samhengi. Slíkur skortur á rökvísi getur því tæplega skýrst af öðru en málamiðlunarkaupum til þess að mynda meirihluta. Sýknan í efnisliðum ákærunnar byggir réttilega á því að ekki hafi verið sannað að orsakasamhengi hafi verið á milli ákæruatriðanna og hruns krónunnar og bankanna. Hvernig er þá unnt að líta svo á að sannað sé að minnka hefði mátt tjónið með alveg óútskýrðri pólitískri stefnubreytingu og vegna umræðna á ráðherrafundi um hana og ótilgreindum athöfnum sem af henni hefðu leitt? Í dóminum segir að leiða megi rök að orsakasamhengi þarna á milli en þau rök eru þó ekki borin fram. Þetta er nær huglægu mati en lagarökum. Þessi atriði og fleiri veikja meirihlutaniðurstöðuna rökfræðilega.Innan eða utan valdmarka? Stjórnarskráin mælir fyrir um að nýmæli í lögum og mikilvæg stjórnarmálefni skuli rædd á ráðherrafundum. Jafnan var litið svo á að þetta ákvæði tæki til þeirra mála einna þar sem vald ríkisstjórnar er takmarkað vegna formlegs atbeina þjóðhöfðingja eða æðsta valds Alþingis. Orðalagið er tekið úr konungsbréfi frá 1919 um þau mál sem leggja átti fyrir ríkisráð og sett í stjórnarskrárfrumvarp síðar það ár. Jafnframt er þar með sama orðalagi kveðið á um hvaða mál eigi að ræða á ráðherrafundum. Erfitt er að skýra þetta með öðrum hætti en þeim að einungis sé skylt að ræða á ráðherrafundum þau mál sem leggja þarf fyrir ríkisráð. Ólafur Jóhannesson kemst að þeirri niðurstöðu í riti sínu um stjórnskipun Íslands. Hitt er annað að pólitískar ástæður ráða því að miklu fleiri mál eru rædd á ráðherrafundum en stjórnskipulega er skylt. Þær forsendur falla utan valdsviðs dómstóla. Að þessu virtu er nærlægt að líta svo á að Landsdómur hafi gert meir en að túlka þetta ákvæði. Í reynd hafi hann búið til nýja stjórnskipunarreglu sem engum gat verið fullljós 2008. Forsendan fyrir sakfellingu er sú skoðun dómsins að breyta hafi átt stjórnarstefnunni eins og hún var orðuð í stjórnarsáttmála og ræða í ríkisstjórn nýjar ákvarðanir á þeim grunni. Vafasamt er að það sé innan valdmarka dómstóla að skylda ríkisstjórn til að breyta stjórnarsáttmála og aðhafast eitthvað í framhaldi af því. Erfitt er að sjá að það samræmist lýðræðishugmyndum um þrígreiningu ríkisvaldsins. Almennt á ekki að deila við dómarann. Eðli þessara álitamála kallar hins vegar á fræðilega skoðun. Í rökstuðningi minnihlutans er vísað í mannréttindasáttmálann. Líta má á það sem áskorun um að fara með málið fyrir Mannréttindadómstólinn. Frá lögfræðilegu sjónarhorni væri það áhugavert. Hitt er spurning hvort þessi refsilausa sakfelling er ekki pólitískt of léttvæg til að hafa svo mikið við. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Landsdómur Þorsteinn Pálsson Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun
Geir Haarde þurfti ekki að vera ósáttur við niðurstöðu Landsdóms. Satt best að segja gat hann verið mjög ánægður. En hann hafði ekki tilefni til að vera hæstánægður. Eðlilega er spurt hvort sækjandinn eða verjandinn hafi haft erindi sem erfiði fyrir réttinum. Þegar af þeirri ástæðu, að ekki er gerð refsing fyrir eitt einasta ákæruatriði, er ekki unnt að svara spurningunni á annan veg en að sá naumi pólitíski meirihluti sem stóð að ákærunum hafi farið erindisleysuna. Hér kemur þó fleira til skoðunar: Áður var búið að vísa veigamiklum ákærum frá. Að mati dómsins sjálfs er sýknað af veigamestu ákærunum sem eftir stóðu en sakfellt án refsingar í þeirri gildisminnstu. Þegar málskostnaður er alfarið felldur á ákæruvaldið er jafnan litið svo á að í því felist skilaboð um að ekki hafi verið tilefni til ákæru. Niðurstaðan er skýr: Ákærurnar spruttu meir af pólitík en réttvísi. Þeir sem ábyrgð bera á því fá á baukinn. Kallað hefur verið eftir afsögn Steingríms Sigfússonar vegna forystu hans um málsókn. Honum er það ekki stjórnskipulega skylt. Það þarf hann aðeins að gera vilji hann vera vandur að virðingu sinni. Um pólitísk áhrif til lengri tíma er erfitt að spá. Flestir eru sammála um að það væri skaðlegt lýðræðinu að halda áfram á þessari braut. En hætt er við að eitrið sitji eftir ef aðeins fáir af pólitískum ákærendum í málinu sjá mistökin.Skortur á rökvísi Sakfellingin lýtur að formsatriði. Þau eru að sönnu mikilvæg og alveg sérstaklega í stjórnarskrá. En því aðeins er unnt að sakfella fyrir slíkt formbrot að um stórkostlegt gáleysi hafi verið að ræða. Það er hins vegar lítið rökrænt samhengi í því að stórkostlegt gáleysi sé talið refsilaust. Sú ástæða að refsing sé ekki gerð vegna þess að forsætisráðherra eigi sextíu og eitt ár að baki án brotaferils er léttvæg í stjórnskipulegu samhengi. Slíkur skortur á rökvísi getur því tæplega skýrst af öðru en málamiðlunarkaupum til þess að mynda meirihluta. Sýknan í efnisliðum ákærunnar byggir réttilega á því að ekki hafi verið sannað að orsakasamhengi hafi verið á milli ákæruatriðanna og hruns krónunnar og bankanna. Hvernig er þá unnt að líta svo á að sannað sé að minnka hefði mátt tjónið með alveg óútskýrðri pólitískri stefnubreytingu og vegna umræðna á ráðherrafundi um hana og ótilgreindum athöfnum sem af henni hefðu leitt? Í dóminum segir að leiða megi rök að orsakasamhengi þarna á milli en þau rök eru þó ekki borin fram. Þetta er nær huglægu mati en lagarökum. Þessi atriði og fleiri veikja meirihlutaniðurstöðuna rökfræðilega.Innan eða utan valdmarka? Stjórnarskráin mælir fyrir um að nýmæli í lögum og mikilvæg stjórnarmálefni skuli rædd á ráðherrafundum. Jafnan var litið svo á að þetta ákvæði tæki til þeirra mála einna þar sem vald ríkisstjórnar er takmarkað vegna formlegs atbeina þjóðhöfðingja eða æðsta valds Alþingis. Orðalagið er tekið úr konungsbréfi frá 1919 um þau mál sem leggja átti fyrir ríkisráð og sett í stjórnarskrárfrumvarp síðar það ár. Jafnframt er þar með sama orðalagi kveðið á um hvaða mál eigi að ræða á ráðherrafundum. Erfitt er að skýra þetta með öðrum hætti en þeim að einungis sé skylt að ræða á ráðherrafundum þau mál sem leggja þarf fyrir ríkisráð. Ólafur Jóhannesson kemst að þeirri niðurstöðu í riti sínu um stjórnskipun Íslands. Hitt er annað að pólitískar ástæður ráða því að miklu fleiri mál eru rædd á ráðherrafundum en stjórnskipulega er skylt. Þær forsendur falla utan valdsviðs dómstóla. Að þessu virtu er nærlægt að líta svo á að Landsdómur hafi gert meir en að túlka þetta ákvæði. Í reynd hafi hann búið til nýja stjórnskipunarreglu sem engum gat verið fullljós 2008. Forsendan fyrir sakfellingu er sú skoðun dómsins að breyta hafi átt stjórnarstefnunni eins og hún var orðuð í stjórnarsáttmála og ræða í ríkisstjórn nýjar ákvarðanir á þeim grunni. Vafasamt er að það sé innan valdmarka dómstóla að skylda ríkisstjórn til að breyta stjórnarsáttmála og aðhafast eitthvað í framhaldi af því. Erfitt er að sjá að það samræmist lýðræðishugmyndum um þrígreiningu ríkisvaldsins. Almennt á ekki að deila við dómarann. Eðli þessara álitamála kallar hins vegar á fræðilega skoðun. Í rökstuðningi minnihlutans er vísað í mannréttindasáttmálann. Líta má á það sem áskorun um að fara með málið fyrir Mannréttindadómstólinn. Frá lögfræðilegu sjónarhorni væri það áhugavert. Hitt er spurning hvort þessi refsilausa sakfelling er ekki pólitískt of léttvæg til að hafa svo mikið við.