Viðskipti erlent

Grikkir fá greitt úr neyðarsjóði

Fjármálaráðherra Danmerkur á blaðamannafundi í Brussel.
Fjármálaráðherra Danmerkur á blaðamannafundi í Brussel. fréttablaðið/AP
Fjármálaráðherrar evruríkjanna sautján hafa formlega samþykkt að veita Grikklandi fjárhagsaðstoð úr neyðarsjóði Evrópusambandsins, eins og fyrirheit voru gefin um í síðustu viku.

Grikkir fá því 39,4 milljarða evra greidda smám saman, sem á að duga þeim til að greiða næstu afborganir af ríkisskuldum.

Fjármálaráðherrarnir hafa einnig samþykkt að beita refsiaðgerðum gegn Ungverjalandi vegna þess að fjárlagahalli landsins fer fram úr þeim mörkum sem reglur ESB segja til um.

Margarethe Vestager, fjármálaráðherra Danmerkur, segir að þessi ákvörðun verði reyndar endurskoðuð í júní, áður en til framkvæmda refsiaðgerðanna kemur, en þær felast í því að Ungverjar fá ekki greiddar þær 495 milljónir evra úr þróunarsjóðum ESB sem þeir annars ættu rétt á.

Á hinn bóginn samþykktu evruríkin að veita Spánverjum svigrúm til þess að vera með 5,3 prósenta fjárlagahalla í ár, eða nokkru hærri halla en áður hafði verið gerð krafa um. Spánverjar fá hins vegar ekki að hafa hallann 5,8 prósent, eins og þeir höfðu þó boðað, og þurfa því að finna ný sparnaðarráð í ríkisrekstri upp á 0,5 prósent.- gb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×