Þingið sem treysti sér ekki Pawel Bartoszek skrifar 24. febrúar 2012 06:00 Stjórnarskrá Íslands verður ekki breytt nema með samþykki tveggja þinga með kosningum á milli. Það vald verður að óbreyttu ekki framselt annað. Né heldur er hægt að framselja ábyrgðina af því að vandað sé til verksins, þótt þingið kunni að langa til þess. „Í ljósi þeirrar kröfu sem uppi er í samfélaginu um lýðræðisumbætur og þess litla trausts sem ríkir gagnvart Alþingi telja flutningsmenn brýnt að almenningur fái að láta í ljós álit sitt í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu áður en Alþingi tekur frumvarpið til efnislegrar meðferðar." Ofangreindur texti er kominn úr greinargerð með upprunalegri þingsályktunartillögu Þórs Saari og fleiri þingmanna, þ.m.t. nokkurra stjórnarþingmanna um meðferð á tillögum stjórnlagaráðs. Það ber auðvitað vott um ferskt raunsæi að þingið telji sig sjálft svo óvinsælt að það telji sig vart geta unnið vinnu sína. En það að Alþingi upplifi eigin vinsældir lágt gefur því ekki heimild til að afsala sér valdi. Telji þingið sig sannarlega það rúið trausti að það geti ekki unnið vinnu sína á það að pakka saman og boða til kosninga. Í skilabréfi stjórnlagaráðs buðust fulltrúar ráðsins til að koma aftur að málinu ef fram kæmu hugmyndir um breytingar á frumvarpi þess. Nú hefur Alþingi haft frumvarpið á borði sínu í hálft ár, en virðist ekki hafa tekið málið til neinnar raunverulegrar skoðunar. Það liggur hvorki fyrir faglegt mat þingsins á tillögunum né pólitísk afstaða til þeirra. Engar hugmyndir um breytingar á tillögunum liggja fyrir. Kannski mun eitthvað birtast um helgina en það mun þá varla vera nokkuð sem hlotið hefur mikla mikla umræðu í þinginu. Veganesti sem lítið gagn er að. Margir sem eru sammála því að þingið hefði mátt vinna vinnu sína betur segja samt: „Jæja, en þó svo einhver annar hafi klúðrað málum, þýðir þá nokkuð að hlaupast frá verkinu?" Þegar svo er talað er stundum látið eins og þessi tilhögun mála hafi verið ákveðin af erlendu herliði. Og enginn, hvorki í stjórnlagaráði né annars staðar, hafi nokkru um hana ráðið. Því fer auðvitað fjarri. Margir stjórnlagaráðsliða standa stjórnarflokkunum nærri. Þá hefur Hreyfingin/Breiðfylkingin gnótt fulltrúa þar líka og er að öllum líkindum einn stærsti „þingflokkur" innan stjórnlagaráðs. Margir innan þess hóps höfðu þá áður lýst þeirri skoðun að setja ætti frumvarpið beint í þjóðaratkvæði, án breytinga eða frekari lögfræðilegrar yfirlegu. Þeirri staðreynd að stjórnlagaráðið hafi orðið einróma í afgreiðslu sinni var stundum beitt á þann veg að engar breytingar mætti gera á frumvarpinu. Veikur andvaralaus stjórnarmeirihluti virðist hafa fallist á þetta og skilað málinu út úr þinginu án þess að hafa skoðað málið eða myndað sér á því skoðun. Þegar svo ber undir ættu þeir sem bera hag verkefnisins fyrir brjósti að beina gagnrýni sinni að þingmeirihlutanum en ekki að þeim fulltrúum sem hafa látið ýmislegt yfir sig ganga til að vinna að framgangi þess, en telja sig ekki lengur geta tekið ábyrgð á því sem kemur út úr ferli sem jafnilla er staðið að. Ferli, þar sem reglurnar eru samdar að því er virðist eftir því sem leikurinn spilast. Í tillögum stjórnlagaráðs er margt gott að finna. Fjölmargt annað hafði ég heilmiklar efasemdir um, en von mín var að efnisleg yfirferð þingsins gæti annaðhvort lagað ýmislegt af því sem ég taldi betur mega fara eða sannfært mig og aðra sem efins voru um að áhyggjurnar væru óþarfar. Án slíkrar faglegrar og efnislegrar yfirferðar er verið að bjóða fólki í raun að kjósa milli ófullbúins stjórnarskrárfrumvarps og þess að gera engar breytingar. Samkvæmt þingsályktunartillögunni á að fara í efnislega vinnu eftir úrslit atkvæðagreiðslunnar. Ég skil ekki þá hugmyndafræði: Kjósa fyrst og hugsa svo? Einhverjir hafa skorað á mig að taka sæti í stjórnlagaráði þegar það hittist í mars. Ég er með áskorun á móti. Ég skora á þingið að falla frá hugmyndum um ráðgefandi þjóðaratkvæði í sumar, rýna þess í stað efnislega í tillögurnar og móta sér afstöðu til þeirra. Þing sem treystir sér ekki til þess mun hvort sem er ekki breyta stjórnarskrá. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Pawel Bartoszek Skoðanir Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Þegar Samtök verslunar og þjónustu vita betur Erna Bjarnadóttir Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun
Stjórnarskrá Íslands verður ekki breytt nema með samþykki tveggja þinga með kosningum á milli. Það vald verður að óbreyttu ekki framselt annað. Né heldur er hægt að framselja ábyrgðina af því að vandað sé til verksins, þótt þingið kunni að langa til þess. „Í ljósi þeirrar kröfu sem uppi er í samfélaginu um lýðræðisumbætur og þess litla trausts sem ríkir gagnvart Alþingi telja flutningsmenn brýnt að almenningur fái að láta í ljós álit sitt í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu áður en Alþingi tekur frumvarpið til efnislegrar meðferðar." Ofangreindur texti er kominn úr greinargerð með upprunalegri þingsályktunartillögu Þórs Saari og fleiri þingmanna, þ.m.t. nokkurra stjórnarþingmanna um meðferð á tillögum stjórnlagaráðs. Það ber auðvitað vott um ferskt raunsæi að þingið telji sig sjálft svo óvinsælt að það telji sig vart geta unnið vinnu sína. En það að Alþingi upplifi eigin vinsældir lágt gefur því ekki heimild til að afsala sér valdi. Telji þingið sig sannarlega það rúið trausti að það geti ekki unnið vinnu sína á það að pakka saman og boða til kosninga. Í skilabréfi stjórnlagaráðs buðust fulltrúar ráðsins til að koma aftur að málinu ef fram kæmu hugmyndir um breytingar á frumvarpi þess. Nú hefur Alþingi haft frumvarpið á borði sínu í hálft ár, en virðist ekki hafa tekið málið til neinnar raunverulegrar skoðunar. Það liggur hvorki fyrir faglegt mat þingsins á tillögunum né pólitísk afstaða til þeirra. Engar hugmyndir um breytingar á tillögunum liggja fyrir. Kannski mun eitthvað birtast um helgina en það mun þá varla vera nokkuð sem hlotið hefur mikla mikla umræðu í þinginu. Veganesti sem lítið gagn er að. Margir sem eru sammála því að þingið hefði mátt vinna vinnu sína betur segja samt: „Jæja, en þó svo einhver annar hafi klúðrað málum, þýðir þá nokkuð að hlaupast frá verkinu?" Þegar svo er talað er stundum látið eins og þessi tilhögun mála hafi verið ákveðin af erlendu herliði. Og enginn, hvorki í stjórnlagaráði né annars staðar, hafi nokkru um hana ráðið. Því fer auðvitað fjarri. Margir stjórnlagaráðsliða standa stjórnarflokkunum nærri. Þá hefur Hreyfingin/Breiðfylkingin gnótt fulltrúa þar líka og er að öllum líkindum einn stærsti „þingflokkur" innan stjórnlagaráðs. Margir innan þess hóps höfðu þá áður lýst þeirri skoðun að setja ætti frumvarpið beint í þjóðaratkvæði, án breytinga eða frekari lögfræðilegrar yfirlegu. Þeirri staðreynd að stjórnlagaráðið hafi orðið einróma í afgreiðslu sinni var stundum beitt á þann veg að engar breytingar mætti gera á frumvarpinu. Veikur andvaralaus stjórnarmeirihluti virðist hafa fallist á þetta og skilað málinu út úr þinginu án þess að hafa skoðað málið eða myndað sér á því skoðun. Þegar svo ber undir ættu þeir sem bera hag verkefnisins fyrir brjósti að beina gagnrýni sinni að þingmeirihlutanum en ekki að þeim fulltrúum sem hafa látið ýmislegt yfir sig ganga til að vinna að framgangi þess, en telja sig ekki lengur geta tekið ábyrgð á því sem kemur út úr ferli sem jafnilla er staðið að. Ferli, þar sem reglurnar eru samdar að því er virðist eftir því sem leikurinn spilast. Í tillögum stjórnlagaráðs er margt gott að finna. Fjölmargt annað hafði ég heilmiklar efasemdir um, en von mín var að efnisleg yfirferð þingsins gæti annaðhvort lagað ýmislegt af því sem ég taldi betur mega fara eða sannfært mig og aðra sem efins voru um að áhyggjurnar væru óþarfar. Án slíkrar faglegrar og efnislegrar yfirferðar er verið að bjóða fólki í raun að kjósa milli ófullbúins stjórnarskrárfrumvarps og þess að gera engar breytingar. Samkvæmt þingsályktunartillögunni á að fara í efnislega vinnu eftir úrslit atkvæðagreiðslunnar. Ég skil ekki þá hugmyndafræði: Kjósa fyrst og hugsa svo? Einhverjir hafa skorað á mig að taka sæti í stjórnlagaráði þegar það hittist í mars. Ég er með áskorun á móti. Ég skora á þingið að falla frá hugmyndum um ráðgefandi þjóðaratkvæði í sumar, rýna þess í stað efnislega í tillögurnar og móta sér afstöðu til þeirra. Þing sem treystir sér ekki til þess mun hvort sem er ekki breyta stjórnarskrá.