Erlent

Segir samsæri gegn Sýrlandi

utanríkisráðherrann Al-Moallem segir hálfan heiminn í samsæri gegn Sýrlandi. fréttablaðið/ap
utanríkisráðherrann Al-Moallem segir hálfan heiminn í samsæri gegn Sýrlandi. fréttablaðið/ap
Utanríkisráðherra Sýrlands segir „hálfan heiminn" vera viðriðinn samsæri gegn landinu. Arababandalagið dró eftirlitsnefnd sína til baka frá landinu í gær vegna þess að stjórnvöld í Sýrlandi hafa ekki hætt að beita borgara sína ofbeldi.

Walid al-Moallem utanríkisráðherra gaf í skyn í gær að stjórnvöld myndu áfram brjóta mótmælin á bak aftur. Sameinuðu þjóðirnar telja að 5.400 manns hafi látið lífið síðan uppreisnin hófst í mars í fyrra. Stjórnvöld hafa sagt uppreisnina vera samsæri sem vopnaðir hópar standi á bak við. Al-Moallem sagði að nú tækju arabaríki þátt í samsærinu.

Nú hefur samstarfsvettvangur Persaflóaríkja óskað eftir því við Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að gripið verði til aðgerða til þess að neyða stjórnvöld í Sýrlandi til að fara eftir friðaráætlunum Arababandalagsins. Þau kveða á um að þjóðstjórn verði komið á og að Assad forseti afhendi varaforseta völdin.

Fregnir bárust af því í gær að sýrlenskir hermenn hefðu skotið á hundruð manna í þorpinu al-Barra í norðurhluta landsins. Fólkið hafði komið saman í jarðarför. Sex eru sagðir hafa slasast.- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×