Erlent

Hafna hugmyndum Arababandalagsins

Órói magnast Tugir þúsunda manna og kvenna hafa mótmælt ofríki Bashars al-Assad forseta á götum Sýrlands síðasta árið. Arababandalagið hefur reynt að stilla til friðar, en án árangurs. Fréttablaðið/AP
Órói magnast Tugir þúsunda manna og kvenna hafa mótmælt ofríki Bashars al-Assad forseta á götum Sýrlands síðasta árið. Arababandalagið hefur reynt að stilla til friðar, en án árangurs. Fréttablaðið/AP
Stjórnvöld í Sýrlandi höfnuðu í gær hugmyndum Arababandalagsins um að koma á friði í landinu. Þær fólu meðal annars í sér að Bashar a-Assad forseti færi frá völdum, þjóðstjórn yrði mynduð innan tveggja mánaða og lýðræðislegar kosningar færu fram undir alþjóðlegu eftirliti.

Assad hefur neitað að taka ábyrgð á ofbeldinu sem hefur geisað í landinu í tæpt ár og kostað á sjötta þúsund manna lífið. Þess í stað kennir hann hryðjuverkamönnum og útsendurum erlendra samsærismanna um ástandið. Tillögurnar eru að mati stjórnvalda óumbeðin erlend afskipti af innanríkismálum Sýrlands og skýrt brot á fullveldi landsins.

Evrópusambandið lýsti í gær yfir stuðningi við áætlun Arababandalagsins og herti enn frekar refsiaðgerðir sínar gegn stjórnvöldum í Sýrlandi. Samkvæmt þeim eru eignir 22ja einstaklinga, tengdum stjórnvöldum, frystar og bætast við hóp um 100 manna sem eins er ástatt um.

Arababandalagið hefur verið við eftirlit í landinu í einn mánuð og framlengdi dvöl sína um mánuð í viðbót í gær.

Andófshópar í Sýrlandi eru ósáttir við tillögur Arababandalagsins sem þeim finnst ganga of skammt. Allt annað en tafarlaus afsögn Assads muni aðeins gefa stjórnvöldum meiri tíma til að berja niður andóf í landinu.

Sýrlensk stjórnvöld eru þó ekki alein á báti því að fregnir bárust af því í gær að Rússar hefðu ákveðið að selja þeim 36 orrustuþotur. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×