Sport

Gunnar Nelson keppir á Wembley í febrúar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Nelson.
Gunnar Nelson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Íslenski bardagaíþróttakappinn Gunnar Nelson úr Mjölni mun berjast við Bandaríkjamanninn Justin "Fast Eddy" Edwards í UFC keppninni í MMA (blönduðum bardagalistum) en keppnin fer frá í Wembley Arena í London þann 16. febrúar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Haraldi Dean Nelson, föður og umboðsmnni Gunnars.

Gunnar er eins og flestir vita taplaus á ferli sínum í MMA og hefur unnið 10 bardaga í röð, þar af 9 í fyrstu lotu. Hann sigraði frumraun sína innan UFC í fyrstu lotu í september síðastliðnum þegar hann bar sigurorð af Bandaríkjamanninum DaMarques Johnson í Nottingham.

Justin Edwards á a.m.k. 10 atvinnumannabardaga að baki í MMA og svipað marga áhugamannabardaga. Hann hefur keppt 4 sinnum innan raða UFC og vann sinn stærsta sigur á ferlinum í október síðastliðnum þegar hann svæfði reynsluboltann Josh Neer á aðeins 45 sekúndum en Neer á baki 46 atvinnubardaga í MMA, þar af 33 sigra.

Búast má við að fjöldi Íslendinga mæti til London en síðast mættu á annað hundrað manns á bardaga Gunnars í Nottingham. Justin Edwards er án efast erfiðasti andstæðingur Gunnars til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×