Viðskipti erlent

Norski olíusjóðurinn fjárfestir fyrir yfir 1.300 milljarða

Norski olíusjóðurinn hyggst fjárfesta í bandaríska fasteignamarkaðinum fyrir 11 milljarða dollara eða vel yfir 1.300 milljarða króna.

Þetta kemur fram í frétt á Bloomberg fréttaveitunni. Sem stendur er stærð olíusjóðsins nær 3.800 milljarðar norskra króna eða rúmlega 83 þúsund milljarðar króna. Ætlunin er að nota um 5% af þeirri upphæð til að fjárfesta í fasteignum. Þar af á þriðjungurinn að vera í bandarískum fasteignum.

Bloomberg ræðir við Yngve Slyngstad forstjóra sjóðsins um málið. Hann segir að bandaríski fasteignamarkaðurinn sé næstur á dagskrá hjá sjóðnum. Þar horfi sjóðurinn til kaupa á stærri fasteignum eins og skrifstofubyggingum í stærri borgum og verslunarmiðstöðvum.

Olíusjóðurinn hefur þegar fjárfest í fasteignum í London, París, Frankfurt og Berlín.

Nú fyrir helgina keypti sjóðurinn svo fyrstu fasteign sína í Sviss en þar var um að ræða skrifstofusamstæðuna sem hýsir Credit Suisse bankann í Zurich. Verðið sem sjóðurinn greiddi fyrir þá fasteign var einn milljarður svissneskra franka eða um 135 milljarðar kr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×