Apple mun leggja höfuðáherslu á þróun Apple TV margmiðlunarspilarans eða svipaðrar vöru á næstu misserum. Þetta tilkynnti Tim Cook, framkvæmdastjóri tæknirisans í dag en hann var gestur í fréttaskýringarþætti NBC, Rock Center.
Aðspurður um hvað væri á döfinni hjá Apple svaraði Cook: „Þegar ég geng inn í setustofuna mína og kveiki á sjónvarpinu þá líður mér eins og ég sé kominn 20 til 30 ár aftur í tímann."
„Þetta er svið sem Apple hefur mikinn áhuga á. En ég get ekki sagt meira en það, " sagði Cook.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Cook bendir á möguleika Apple TV. Í febrúar sagði hann að Apple þyrfti að einbeita sér að Apple TV og þróa frambærilegt raftæki sem hægt væri að stilla upp við hlið Mac-tölvunum og iPhone snjallsímanum.
Apple vill bylta sjónvarpsglápinu
