Juventus sá til þess að Evrópumeistarar Chelsea eiga nú litla möguleika á því að komast áfram úr riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.
Shakhtar Donetsk og Bayern München tryggðu sér í kvöld sæti 16-liða úrslitum, sem og Barcelona og Valencia sem gerðu það fyrr í dag.
Chelsea yrði þar með fyrsta meistaraliðið sem fellur úr leik í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Liðið er nú í þriðja sæti G-riðils með sjö stig, tveimur stigum á eftir Juventus.
Shakhtar Donetsk er í efsta sæti riðilsins með tíu stig og er öruggt áfram í riðlakeppnina. Úkraínumennirnir unnu 5-2 sigur á Nordsjælland á útivelli í kvöld.
Chelsea þarf nú að vinna Nordsjælland á heimavelli í lokaumferðinni og treysta á að Juventus tapi á sama tíma fyrir Shakhtar í Úkraínu.
Bayern München er komið áfram úr F-riðli eftir 1-1 jafntefli við Valencia á útivelli. Spánverjarnir voru þegar öruggir áfram en það var ljóst eftir sigur Lille á BATE í sama riðli fyrr í dag.
Í G-riðli ríkir mikil spenna fyrir lokaumferðina eftir 2-1 sigur Benfica á Celtic. Þessi tvö lið eru nú jöfn að stigum og þarf Celtic að ná betri úrslitum í lokaumferðinni til að komast áfram á kostnað Portúgalanna. Celtic mætir þá Spartak Moskvu á heimavelli en Barcelona tekur á móti Benfica.
Manchester United var þegar búið að tryggja efsta sæti H-riðils fyrir leiki kvöldsins. Liðið hafði því ekki að neinu að keppa gegn Galatasaray í Tyrklandi í kvöld og tapaði, 1-0.
Cluj vann á sama tíma 3-1 sigur á Braga og er með sjö stig, rétt eins og Galatasaray. Þessi lið berjast því um annað sæti riðilsins í lokaumferðinni.
Úrslit kvöldsins:
Fótbolti