Sundkonan Eygló Ósk Gústafsdóttir úr Ægi komst í morgun í undanúrslit í 100 metra baksundi á Evrópumeistaramóti í 25 metra laug sem hófst í morgun í Chartres í Frakklandi. Eygló var næstsíðust inn í undanúrslitin en undanúrslitasundið fer fram í kvöld.
Eygló Ósk synti 100 metra baksundið á 59,87 sekúndum og var aðeins frá Íslandsmeti sínu sem er 59,75 sekúndur. Hún var eini íslenski sundmaðurinn sem komst áfram úr undanrásunum í morgun.
Skagastúlkan Inga Elín Cryer endaði í 31. sæti í 200 metra fjórsundi á 2.17,30 mínútum og þær Bryndís Rún Hansen úr Ægi (33. sæti á 56,73 sekúndum) og Ingibjörg Kristín Jónsdóttir úr SH (34. sæti á 56,75 sekúndum) kepptu báðar í 100 metra skriðsundi.
Ísland átti einnig tvo sundmenn í 200 metra baksundi þar sem Davíð Hildberg Aðalsteinsson varð í 35. sæti á 2.00,97 mínútum og Kolbeinn Hrafnkelsson endaði tveimur sætum neðar á 2.03,78 mínútum.
Sport