Sport

María setti þrjú ný Íslandsmet á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
María Guðsteinsdóttir og landsliðsþjálfaranum Grétari Hrafnssyni á mótsstað.
María Guðsteinsdóttir og landsliðsþjálfaranum Grétari Hrafnssyni á mótsstað. Mynd/Kraftlyftingasamband Íslands
María Guðsteinsdóttir úr Ármanni setti þrjú ný íslandsmet á HM í kraftlyftingum í Puerto Rico í gær en hún er að keppa á sínu sjötta heimsmeistaramóti og endaði í ellefta sæti.

María byrjaði á því að lyfta 160 kílóum í hnébeygju og þau fóru upp mjög örugglega. Hún setti nýtt Íslandsmet með því að lyfta 167,5 kílóum í annarri tilraun og í þriðju tilraun bætti hún um betur og lyfti 172,5 kílóum.

María kláraði 97.5 kíló í fyrstu tilraun á bekknum en mistókst að lyfta 102,5 kílóum í næstu tveimur tilraunum.

Í réttstöðulyftu byrjaði María á því að lyfta 160 kílóum auðveldlega. Hún hélt áfram með því að lyfta 172,5 kílóum og sýndi síðan tilþrif með því að fara upp með 180 kíló í þriðju og síðustu tilraun. Það var nýtt Íslandsmet í flokknum, og samanlagður árangur 450,0 kíló er besti árangur Maríu um árabil og einnig nýtt Íslandsmet.

Larysa Soloviova frá Úkraínu vann flokkinn á nýju heimsmeti, 633,0 kíló, en María endaði í 11.sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×