Sport

Auðunn heimsmeistari í réttstöðulyftu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Auðunn Jónsson á pallinum í kvöld.
Auðunn Jónsson á pallinum í kvöld. Mynd/Heimasíða Kraftlyftingasamband Íslands.
Auðunn Jónsson úr Breiðabliki varð í kvöld heimsmeistari í réttstöðulyftu á síðasta degi HM í kraftlyftingum í Púertó Ríkó en hann varð jafnframt áttundi í samanlögðu eftir harða keppni.

Auðunn setti þrjú Íslandsmet í úrslitunum, í samanlögðu, í hnébeygju og svo í réttstöðulyftu þar sem hann vann heimsmeistaratitilinn. Hér fyrir neðan má sjá brot af lýsingu á keppninni í kvöld af heimasíðu Kraftlyftingasambandi Íslands.



Auðunn byrjaði á því að lyfta 390,0 kíló í hnébeygju og hafði ekkert fyrir því. Í annari lyftu setti hann nýtt Íslandsmet með að lyfta 412,5 kílóum álíka auðveldlega. Í þriðju tilraun reyndi hann við 417,5 kíló og virtist eiga inni fyrir því, en lyftan mistókst og hann endaði þess vegna með 412,5 kíló og 8.sæti.

Á bekknum byrjaði Auðunn í 262,5 kg. Axlarmeiðsl hafa hrjáð hann undanfarið og enginn vissi hversu mikil áhrif það myndi hafa. Fyrsta lyftan 262,5 kg kláraðist örugglega án þess að vera verulega sannfærandi. Önnur lyftan (272.5 kg) mistókst en í þriðju tilraun mætti Auðunn ákveðinn til leiks og fékk þrjú hvít ljós á 275,0 kílóa lyftu. Hann var þar alveg við sinn besta árangur og það dugði í 8.sæti.

Auðunn fór til Púertó Ríkó með þann ásetning að taka gullið í réttstöðulyftu. Hann byrjaði í 335,0 kíló svona upp á grínið og skildi svo keppinautana eftir í annarri tilraun með 362,5 kg sem er nýtt Íslandsmet. Það dugði til sigurs en Auðunn reyndi við 375,0 kíló í síðustu tilraun en þrátt fyrir hetjulegri baráttu hafði hann það ekki.

Auðunn endaði síðan í 8.sæti í samalögðu á nýju Íslandsmeti (1050,0 kíló) en baráttan í flokknum var gríðarlega hörð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×