Sport

Blönduð sveit Íslands hafnaði í fjórða sæti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Fimleikasamband Íslands
Í dag fara fram úrslit í öllum flokkum á Evrópumeistaramótinu í hópfimleikum sem nú er haldið í Árósum í Danmörku.

Keppni í einum flokki er þegar lokið. Ísland hafnaði í fjórða sæti meðal blandaðra liða en liðið hlaut alls 52,166 stig.

Danmörk hlaut gull í flokkinum með 59,666 stig en Noregur (58,558 stig) var skammt undan. Svíar (56,633) fengu svo brons.

Ísland er ekki með keppnislið í karlaflokki en kvennaliðið er ríkjandi Evrópumeistari. Stelpurnar höfnuðu í öðru sæti í undankeppninni en úrslitin hefjast klukkan 12.00 í dag.

Þá er einnig keppt í flokki unglinga og á Ísland keppnislið í stúlknaflokki og blönduðum flokki. Stúlkurnar eiga enn eftir að keppa í úrslitum en þær höfnuðu í fyrsta sæti í undankeppninni. Blandaða liðið hefur lokið keppni og hafnaði í fjórða sæti í úrslitum.

Allar þær íslensku keppnissveitir sem taka þátt í mótinu komust því í úrslit í sínum flokkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×