Sport

Ísland varði Evrópumeistaratitilinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kvennasveit Íslands varð í dag Evrópumeistari í hópfimleikum og varði þar með titilinn sem stelpurnar unnu fyrir tveimur árum síðan. Ísland vann með þó nokkrum yfirburðum.

Keppt var í Árósum í Danmörku og fékk Ísland samtals 59,166 stig og stórbætti árangur sinn frá því í undankeppninni í gær. Svíar urðu efstir í undankeppninni en urðu að játa sig sigraða í dag.

Íslenska sveitin keppti fyrst í æfingum á dýnu þar sem stelpurnar stórbættu árangur sinn frá því í undankeppninni í gær. Þá fengu þær 17,150 stig en í úrslitunum í dag fékk liðið 19,050 stig.

Ísland fékk svo nákvæmlega sömu einkunn í æfingum á trampólíni - 19,050 stig. Það var líka bæting frá því í undankeppninni í gær en þá fengu stelpurnar 18,300 stig.

Frammistaðan í lokagreininni, dansi, var sömuleiðis frábær. Þegar þarna var komið hafði Ísland lokið keppni í öllum greinum. Svíþjóð átti eftir eftir að keppa í æfingum á dýnu en Ísland hafði nauma forystu fyrir lokagreinina. Ísland náði hins vegar að halda efsta sætinu og verja þar með titilinn.

Ísland fékk 21,016 fyrir dansæfingar sínar og bætti sig um tæp 2,5 stig.

Úrslit

1. Ísland 59,116 stig

2. Svíþjóð 56,133 stig

3. Finnland 50,666 stig

4. Noregur 49,616 stig

5. Danmörk 49,600 stig

6. Þýskaland 48,200 stig




Fleiri fréttir

Sjá meira


×