Fótbolti

Manchester United lenti 0-2 undir en vann samt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Javier Hernández stimplaði sig inn í tímabilið með því að skora tvö mörk í 3-2 endurkomu sigri Manchester United á Braga í leik liðanna í Meistaradeildinni á Old Trafford í kvöld. United lenti 0-2 undir eftir tuttugu mínútur en kom til baka og Javier Hernández tryggði liðinu þriðja sigurinn í röð í Meistaradeildinni með sínu öðru marki í leiknum.

Brasilíumaðurinn Alan kom Braga í 2-0 á fyrstu 20 mínútum leiksins. Fyrra markið skoraði hann með skalla á 2. mínútu eftir fyrirgjöf frá Hugo Viana en það síðara með skoti úr teignum eftir frábæran undirbúning Éder.

Javier Hernández náði að minnka muninn á 25. mínútu með skalla af stuttu færi eftir sendingu frá Shinji Kagawa en laglegur einleikur Robin Van Persie átti þátt í undirbúningi marksins.

Pressa Manchester United var mun meiri í seinni hálfleiknum og Jonny Evans náði að jafna metin á 62. mínútu eftir hornspyrnu. Evans hitti ekki boltann í fyrstu tilraun en náði síðan að pota boltanum inn.

Javier Hernández kom United í 3-2 með öðrum skalla nú eftir fyrirgjöf frá Tom Cleverley og það reyndist vera sigurmark leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×