Fótbolti

Gylfi tryggði Tottenham jafntefli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Gylfi Þór Sigurðsson opnaði markareikning sinn í Evrópukeppni hjá Tottenham í kvöld þegar hann tryggði sínum 1-1 jafntefli á útivelli á móti slóvenska liðinu NK Maribor í 3.umferð riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Tottenham er nú búið að gera jafntefli í þremur fyrstu leikjunum í Evrópudeildinni og er í 3. sæti riðilsins einu stigi á eftir NK Maribor.

Tottenham var með góð tök á leiknum fyrstu 40 mínúturnar og allt leit út fyrir þægilegan sigur. Gylfi fékk færi strax í upphafi og Tottenham-liðið var mun meira með boltann en tókst ekki að skora.

Það var hinsvegar NK Maribor sem skoraði fyrsta mark leiksins á 42. mínútu. Dejan Mezga labbaði þá í gegnum Tottenham-vörnina og kom boltanum á Robert Beric sem skorað í tómt markið.

Gylfi jafnaði leikinn á 58. mínútu en hann fylgdi þá á eftir og skoraði af stuttu færi eftir að Jermain Defoe hafði skotið í varnarmann. Gylfi átti mikinn þátt í undirbúningi marksins.

Clint Dempsey kom inn á fyrir Gylfa á 75. mínútu en Tottenham tókst ekki að bæta við marki og tryggja sér sigurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×