Fótbolti

Van Nistelrooy: Cristiano Ronaldo er ekki hrokagikkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ruud Van Nistelrooy og Cristiano Ronaldo fagna hér marki með Manchester United.
Ruud Van Nistelrooy og Cristiano Ronaldo fagna hér marki með Manchester United. Mynd/Nordic Photos/Getty
Ruud van Nistelrooy, fyrrum leikmaður Manchester United, Real Madrid og hollenska landsliðsins, hefur komið Cristiano Ronaldo til varnar og segir hann að Portúgalinn snjalli sé ekki hrokagikkur.

„Ég sá hann aldrei sem einhvern hrokagikk. Hann var alltaf tilbúinn að hlusta á góð ráð og var alls ekki hrokafullur. Hann er frábær félagi í klefanum. Hann var kannski svolítið sjálfumglaður en alltaf í góðu skapi og til í að grínast," sagði Ruud van Nistelrooy við Algemeen Dagblad.

Ruud van Nistelrooy var bæði liðsfélagi Cristiano Ronaldo hjá Manchester United frá 2003 til 2006 sem og hjá Real Madrid 2009-10.

„Hann er búinn að leggja gríðarlega mikið á sig til að verða betri leikmaður og það er að skila sér. Hann er hugfanginn af fótboltann og hefur alltaf leitast eftir því að verða hinn fullkomni leikmaður," sagði van Nistelrooy.

„Ronaldo hefur líka allt. Hann er stór, sterkur, fljótur og með sprengikraft. Hann skorar líka mikið af mörkum og er atvinnumaður í alla staði," sagði Ruud van Nistelrooy um Cristiano Ronaldo.

Cristiano Ronaldo hefur þegar skorað 9 mörk á tímabilinu og hann getur bætt við þann fjölda í kvöld þegar Real Madrid mætir Ajax á útivelli í Meistaradeildinni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×