Viðskipti erlent

Hundruð Íslendinga forpöntuðu iPhone 5

BBI skrifar
iPhone 5.
iPhone 5. Mynd/Getty
Bjarni Ákason, framkvæmdastjóri Epli.is, býst við því að eftirspurn eftir iPhone 5 verði meiri en framboðið hér á landi og erfitt verði að komast yfir gripinn fram að jólum.

Þegar hafa á milli 600 og 700 manns forpantað iPhone-inn en fyrsta verk Epli.is verður að koma eintökum til þeirra þegar símtækin lenda hér á landi í næstu viku.

Bjarni segir að eintakið muni kosta tæplega 180 þúsund krónur hérlendis. „Hann er dýrari núna," segir Bjarni en telur að það dragi lítið úr eftirspurninni. „Menn eru að tala um að það fari um tíu milljónir síma bara yfir þessa helgi í heiminum."

Tim Cook, framkvæmdastjóri Apple, kynnir nýja símann fyrr í mánuðinum.Mynd/AP
Bjarni segir allar líkur á að símtækin verði komin í almenna sölu næsta miðvikudag hér á landi. Hann býst við að það verði mikið að gera í verslunum í kjölfarið. „Ég held að það verði allt klikkað sko. Ég held það verði bara mjög erfitt að fá þessa vöru fram að jólum, að það verði skortur á henni," segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×