Innlent

Gagnrýnir danska dómstóla

Jóhanna Margrét Gísladóttir. skrifar
Móðir sem stendur í forræðisdeilu í Danmörku segir danska dómstóla mjög oft dæma útlendingum í óhag en danskur barnsfaðir hennar fékk í dag fullt forræði yfir þremur dætrum þeirra.

Hjördís Svan Aðalheiðardóttir hefur átt í umgengis- og forræðisdeilu við danskan föður þriggja dætra þeirra um nokkurt skeið en deila þeirra hefur vakið mikla athygli hér á landi. Í sumar flutti Hjördís dætur sínar, sem eru á aldrinum fimm til átta ára, í leyfisleysi til Íslands og sögðum við þá frá því í fréttum að lögregla og sérsveit tóku þær af henni með lögregluvaldi og sendu aftur til Danmerkur. Í kjölfarið var höfðað forræðismál þar sem báðir foreldrar gerðu kröfu um fullt forræði en héraðsdómur í Danmörku úrskurðaði í dag að faðirinn fengi fullt forræði. Hjördís segir dóminn hafa verið mikið áfall og að útlendingar í forræðisdeilu í Danmörku séu í mjög veikri stöðu.

„Ég hef verið að kynna mér það og það er mikið í fjölmiðlum núna að það sé varla hægt að berjast við Dani í Danmörku um forræði á börnum, því miður," segir Hjördís.

Hún ætlar að áfrýja dómnum til hærra dómstigs en á meðan deilir hún sameiginlegu forræði með föðurnum en hún hefur mjög takmarkað fengið að hitta dætur sínar.

„Ég er búin að fara á hverjum einasta degi í skólann og leikskólann til þeirra og hitti þær í 20-30 mínútur á hverjum degi og það er rosalega erfitt og í fyrsta skipti sem ég hitti þær þá brotnuðu þær algjörlega saman og grétu allar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×