Apple krefst þess nú að lögbann verði sett á sölu Galaxy S3 snjallsímans í Bandaríkjunum. Síminn er flaggskip suður-kóreska raftækjaframleiðandans Samsung en fyrirtækið er helsti samkeppnisaðili Apple.
Samsung var á dögunum gert að greiða Apple rúmlega milljarð dollara fyrir að hafa brotið lög um hugverkavernd. Stuttu eftir að niðurstaðan var kunngjörð fór Apple fram á að lögbann yrði sett á nokkra snjallsíma Samsung.
Galaxy S3 var upphaflega ekki á lista Apple en tæknirisinn hefur nú uppfært lögbannskröfu sína.
Apple og Samsung standa nú í harðvítugri einkaleyfisbaráttu. Samsung er sakað um að hafa afritað tækni Apple í stað þess að þróa sinn eigin hugbúnað.
Apple vill banna Galaxy S3 í Bandaríkjunum
