Fótbolti

Aron með sex mörk í tveimur leikjum - skoraði tvö og meiddist í sigri AGF

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Jóhannsson er áfram skotskónum með AGF í dönsku úrvalsdeildinni en þessi fyrrum Fjölnismaður og leikmaður í 21 árs landsliði Íslands skoraði tvö mörk í 4-0 útisigri AGF á Silkeborg í dag aðeins fimm dögum eftir að hann skoraði fernu í útisigri á Horsens. Hann spilaði þó bara í 52 mínútur vegna þess að hann fór útaf vegna meiðsla.

Aron skoraði bæði mörkin sín í fyrri hálfleik, það fyrra strax á tólftu mínútu en það síðara í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Annað mark AGF var sjálfsmark leikmanna Silkeborgar á 25. mínútu.

Það gekk samt ekki allt upp hjá Aroni því hann fór meiddur af velli á 52. mínútu. Bjarni Geir Viðarsson, sem lék á miðjunni hjá Silkeborg, var tekinn útaf í hálfleik þegar staðan var þegar orðin 3-0 fyrir AGF. Peter Graulund skoraði síðan fjórða og síðasta mark AGF níu mínútum fyrir leikslok.

Aron hefur þar með skorað 7 mörk í 7 leikjum í dönsku úrvalsdeildinni á tímabilinu og er orðinn markahæsti leikmaður deildarinnar. Þessir tveir útisigrar hafa jafnframt komið AGF-liðinu upp í sjötta sætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×