Lögmaður aðstandenda sagði í kjölfar dómsins að flestir væru sáttir með að réttarhöldin hefðu sýnt fram á að Breivik hafi verið heill á geði þegar hann framdi ódæðisverk sín. Upphaflegt mat geðlækna um að fjöldamorðinginn hafi í raun verið haldinn geðrofa hafi komið þeim á óvart.
Þá hefur Knut Storberget, fyrrverandi dómsmálaráðherra Noregs, fagnað niðurstöðunni. Í samtali við norska ríkisútvarpið sagði hann að Breivik muni sitja bak við lás og slá alla sína tíð og það væri tvímælalaust jákvæð niðurstaða.

Sprengjan var níu hundruð og fimmtíu kíló að þyngd en hún sprakk fyrir utan skrifstofur Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs. Átta manns létust í tilræðinu og tugir særðust. Ljóst er að Breivik notaði áburð og brennsluolíu við gerð sprengjunnar.
Á meðan yfirvöld í Ósló tókust á við afleiðingar sprengjunnar hélt Breivik í átt að Útey. Skotárásin stóð yfir í eina klukkustund og fimmtán mínútur. Við dómsuppkvaðninguna í dag var gert grein fyrir hverju einasta fórnarlambi Breiviks. Sextíu og níu manns létust í skotárásinni en alls skaut Breivik 297 skotum úr riffli sínum og skammbyssu.

Sextánda apríl síðastliðin hófust réttarhöldin yfir Breivik í héraðsdómshúsinu í Ósló. Hann gekkst við sakargiftum en réttlætti verknaðinn með vísun í neyðarvarnarsjónarmið. Að voðaverkin hefðu verið viðbragð við ágangi múslíma í norsku samfélagi sem og ítökum marxista sem hann telur hafa eyðilagt menningu Noregs.