Sport

Sarah Blake: Betra en í Peking

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í London skrifar
Sarah Blake Bateman og Eygló Ósk Gústafsdóttir.
Sarah Blake Bateman og Eygló Ósk Gústafsdóttir. Mynd/Valli
Vísir kynnir til sögunnar íslenska íþróttafólkið sem keppir á Ólympíuleikunum í Lundúnum. Hin hálfbandaríska Sarah Blake Bateman er nú að keppa sínum öðrum leikum fyrir Íslands hönd.

Sarah Blake keppir í fjórum greinum á leikunum og hefur leik í 100 m flugsundi í dag. Hún keppir einnig í 50 m skriðsundi - sem er hennar besta grein á leikunum - 100 m skriðsundi og er svo í 4x100 m boðsundssveit Íslands.

„Mér líður vel og ég hlakka til að keppa. Það er alltaf spennandi á Ólympíuleikum og þetta er enn betra en í Peking," segir hún. „Við erum nú með virkilega gott lið og erum betri en við vorum í Peking. Við eigum tækifæri á að ná virkilega góðum árangri og er það afar spennandi."

Sarah Blake keppti í Peking þegar hún var aðeins átján ára gömul og býr að þeirri reynslu nú. „Fyrir vikið er ég nú vanari þeirri spennu og æsingi sem fylgir því að keppa á Ólympíuleikum."

Sem fyrr segir er 50 m skriðsund hennar sterkasta grein en hún náði OQT-lágmarki í greininni og er sú eina í íslensku sundsveitinni sem gerði það ásamt Eygló Ósk Gústafsdóttur í 200 m baksundi.

„Sú grein er ekki fyrr en eftir nokkra daga og nú er ég aðallega að hugsa um flugsundið. Ég mun nota það til að sjá hvernig ég stend og það hjálpar mig í undirbúningnum fyrir 50 m skriðsundið."

„En undirbúningurinn hefur gengið vel. Ég er að vonast til að geta synt hratt."

Sarah Blake Bateman

22 ára úr Sundfélaginu Ægi

ÓL-greinar:

100 m flugsund: 28. júlí

100 m skriðsund: 1. ágúst

50 m skriðsund: 3. ágúst

4x100 m fjórsund: 3. ágúst




Fleiri fréttir

Sjá meira


×