Enn á ný hafa orðið mannabreytingar í stjórn tæknifyrirtækisins Yahoo! Nýjasti forstjóri fyrirtækisins er Marissa Mayer en hún var áður háttsettur stjórnandi hjá Google, helsta samkeppnisaðila Yahoo!
Mayer er þriðji forstjóri fyrirtækisins á innan við ári. Í fréttatilkynningu frá Yahoo! kemur fram að Mayer sé afar ánægð með nýja starfið.
Yahoo! hefur átt í miklum erfiðleikum síðustu ár. Fyrirtækið var á árum áður vinsælasta leitarvél veraldar en félagið rak einnig afar vinsæla póstþjónustu.
Fyrirtækið hefur átt í miklum erfiðleikum með að halda í við samkeppnisaðila sína, einna helst Google og Facebook.
Því verður þó seint haldið fram að vinsældir Yahoo! séu litlar. Vefgáttin er ein sú vinsælasta í Bandaríkjunum og fréttasía síðunnar er sögð vera sú vinsælasta í heimi.
Talið er að ráðning Mayer beri vitni um breyttar áherslur í rekstri Yahoo! Að fyrirtækið muni leggja meiri áherslu á nýsköpun og vöruþróun.

