Fótbolti

Alfreð skoraði þrennu fyrir Helsingborg í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason. Mynd/Daníel
Alfreð Finnbogason var maðurinn á bak við 4-1 sigur Helsingborg á Gefle í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld en hann skoraði þrennu í leiknum. Helsingborg er í 3. sæti deildarinnar níu stigum á eftir toppliði Elfsborg.

Alfreð minnti á sig í kvöld en einhver orðrómur hefur verið á kreiki að Helsingborg væri að leita sér að nýjum framherja. Alfreð sýndi í kvöld að það er algjör óþarfi.

Alfreð kom Helsingborg í 3-0 með tveimur mörkum með mínútu millibili í upphafi seinni hálfleiks (49. og 50. mínúta) og innsiglaði síðan sigurinn á með fjórða marki liðsins á 80. mínútu eftir að Gefle hafði minnkað muninn átta mínútum áður.

Alfreð var bara búinn að skora samtals þrjú mörk í síðustu tíu deildarleikjum sínum með Helsingborg en er eftir þessa markasýningu búinn að skora 8 mörk í 13 leikjum á leiktíðinni.

Alfreð komst með þessu upp fyrir Gunnar Heiðar Þorvaldsson sem var fyrir leikinn markahæsti íslenski leikmaðurinn í sænsku úrvalsdeildinni í ár en Gunnar Heiðar hefur skorað 6 mörk fyrir IFK Norrköping.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×