Fótbolti

Lundekvam: Hagræðing úrslita á sér stað í norska boltanum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lundekvam í baráttu við Ryan Giggs.
Lundekvam í baráttu við Ryan Giggs. Nordicphotos/Getty
Norska knattspyrnusambandið tók þá ákvörðun í gær að fresta viðureign Ull/Kisa og HamKam í b-deild norska boltans vegna gruns um hagræðingu úrslita.

Norska knattspyrnusambandið boðaði til blaðamannafundar vegna málsins í gær þar sem fram kom að um einsdæmi væri ekki að ræða.

Tveir leikmenn Follo í C-deildinni eru grunaðir um hagræðingu úrslita í viðureign Østsiden og Follo þann 24. júní síðastliðinn sem Østsiden vann 4-3.

Claud Lundekvam, sem lék á árum áður með Southampton í ensku úrvalsdeildinni, segir í viðtali við NRK að um alvarlegt vandamál sé að ræða.

Aðspurður hvort hann viti um tilfelli þar sem norskir leikmenn hafi reynt að hagræða úrslitum vegna spilaskuldar segir Lundekvam:

„Já, ég veit um slík tilfelli. Mörg tilfelli."

Tíðindi gærdagsins, sem vakið hafa mikla athygli í Noregi, koma honum ekki á óvart.

„Nei. Þetta á sér stað í Noregi. Það væri barnalegt að halda öðru fram," sagði Lundekvam.

Yngve Hallén, forseti norska knattspyrnusambandsins, vill ekkert segja um hvort um fleiri tilfelli sé að ræða en þau tvö sem greint hefur verið frá.

„Ég óttast ekki að vandamálið sé stórt en það er ekki útilokað að hagræðing eigi sér víðar stað en í þessum tilfellum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×