Sport

Einar Daði í tólfta sæti fyrir lokagreinina

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd / Stefano Begnis
Einar Daði Lárusson, frjálsíþróttamaður úr ÍR, kastaði lengst 51,75 metra í spjótkastinu í tugþrautarkeppninni á Evrópumótinu í Helsinki. Einar Daði hlaut 615 stig fyrir vikið og er áfram í 12. sæti.

Einar náði sínu besta kasti í fyrstu tilraun en átti svo tvö döpur köst í kjölfarið. Annars vegar 44,42 metra og hins vegar 46,87 metra. Einar Daði á best 56,08 metra frá því á mótinu í Kladno í Tékklandi á dögunum. Spjótkast er ekki sterkasta grein Einars Daða og varð hann í 16. sæti af 18 keppendum.

Einar Daði hefur 6.969 stig fyrir síðustu grein dagsins sem er 1500 metra hlaup. 75 stig eru í Bretann Ashley Bryant sem situr í 11. sæti en Svíinn Björn Barrefors í 13. sætinu er aðeins níu stigum á eftir Einari Daða.

Ljóst er að Einar Daði mun ekki bæta árangur sinn í greininni. Þetta er þó fyrsta stórmótið sem hann tekur þátt í og afrek útaf fyrir sig að komast í gegnum heila grein. Til marks um það hafa átta af keppendunum 26 sem hófu keppni í gær helst úr lestinni.

Keppni í 1500 metra hlaupi hefst klukkan 16.30 en mótið er í beinni útsendingu t.d. á Eurosport og norsku stöðinni NRK.



Þá er hægt að horfa á beina útsendingu á netinu hérna
.




Tengdar fréttir

Einar Daði kominn niður í tólfta sæti - tvær greinar eftir

Einari Daða Lárussyni gekk ekki nóg vel í annarri greininni í röð í tugþrautarkeppninni á Evrópumótinu í frjálsum í Finnlandi þegar hann fór bara yfir 4,60 metra í stangarstökkinu. Einar Daði er í 12. sæti eftir átta greinar með 6354 stig.

Einar Daði í níunda sæti eftir fyrri daginn

ÍR-ingurinn Einar Daði Lárusson endaði fyrri dag tugþrautarkeppninnar á Evrópumótinu í frjálsum með því að ná góðu 400 metra hlaupi. Einar Daði hljóp 400 metrana á 49.07 sekúndum og er í 9. sæti eftir fyrri daginn.

Einar Daði byrjaði vel á EM - persónulegt met í 100 metrunum

ÍR-ingurinn Einar Daði Lárusson setti persónulegt met í fyrstu greininni í tugþrautarkeppni Evrópumótsins í frjálsum íþróttum þegar hann hljóp 100 metra hlaup á 11,11 sekúndum. Einar Daði er í 15. sæti eftir fyrstu grein.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×