FH-ingarnir Kristinn Torfason og Trausti Stefánsson náðu góðum árangri á móti í Austurríki á laugardag.
Trausti hljóp 400 metrana á 47,89 sekúndum og bætti sinn besta árangur í greininni. Tíminn er um leið sá besti sem Íslendingur hefur náð í greininni síðan árið 1998. Trausti er kominn í sjötta sæti yfir bestu 400 metra hlaupara landsins frá upphafi.
Kristinn stökk 7,65 metra í langstökki sem er lengsta stökk hans á árinu. Kristinn á best 7,67 metra utanhúss og er því nærri sínu besta þessa dagana.

