Sport

Landsliðsþjálfari Breta krefst þess að Ólympíufarar læri þjóðsönginn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Charles Van Commenee
Charles Van Commenee Nordicphotos/Getty
Charles Van Commenee, landsliðsþjálfari Breta í frjálsum íþróttum, hefur haft samband við helstu landsliðsmenn þjóðarinnar og athugað hvort þeir kunni textann við þjóðsönginn.

Uppi varð fótur og fit á heimsmeistaramótinu innanhúss í frjálsum íþróttum í mars þegar breska pressan spurði fyrirliða landsliðsins, Tiffany Porter, hvort hún kynni þjóðsönginn. Porter, sem er borin og barnfædd í Michigan-fylki í Bandaríkjunum, kunni hann ekki og vakti það mikla athygli.

„Þau þekkja textann eða munu gera það. Ég veit það vegna þess að ég spurði þau út í það. Ég ætla ekki að hafa samband við alla enda erum við með 90 landsliðsmenn," sagði Commenee og bætti við að hann hefði rætt við þá landsliðsmenn sem væru hvað mest í sviðsljósinu.

Van Commenee, sem er Hollendingur, viðurkenndi sjálfur að kunna ekki textann við þjóðsöng Hollands. Hann gerir engu að síður þá kröfu að íþróttafólk Breta kunni textann við „God save the queen".

„Þetta skiptir máli því ef íþróttafólkið kann ekki þjóðsönginn verður það að stórmáli," sagði Van Commenee um mögulega verðlaunahafa Breta á mótinu. Hollendingurinn ætlar að gera hvað hann getur til þess að forðast skandala af öllum tegundum sem hann segir koma upp á öllum Ólympíuárum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×