Viðskipti erlent

Magurt sumar framundan í ferðaþjónustunni í Grikklandi

Ferðaþjónustan í Grikklandi verður fyrir barðinu á ástandinu þar í landi og þeim pólitíska óróa sem ríkt hefur vegna efnahagsörðuleika Grikkja.

Í frétt á BBC segir að ferðamönnum til Grikklands muni fækka um 20% í ár miðað við árið í fyrra. Það eru einkum Þjóðverjar sem hafa hætt við að fara í sumarfrí til Grikklands og hefur þýskum ferðamönnum fækkað um 40% milli ára. Írskum ferðamönnum muni fækka um 50% og breskum um 20% miðað við sumarið í fyrra.

Í maí mánuði voru pantanir á hótelherbergjum og gistingum um þriðjungi færri en í sama mánuði í fyrra. Wall Street Journal hefur áætlað að fækkunin milli ára nemi 1,5 milljón ferðamanna.

Ferðaþjónustan er helsta atvinnugrein Grikkja og stendur undir um 16% af landsframleiðslu landsins. Reiknað er með að samdrátturinn í greininni í ár muni kosta um 100.000 sumarstörf í landinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×